„Ég bjóst aldrei við að tapa“

Pétur Maack tekur forskot á fagnaðarlætin áður en hann sameinast …
Pétur Maack tekur forskot á fagnaðarlætin áður en hann sameinast íslenska liðinu eftir sigurinn gegn Rúmeníu í gærkvöld. Ljósmynd/Sorin Pana

„Ég vissi að þetta yrði erfiður leikur, en ég bjóst aldrei við að tapa,“ sagði Botond Flinta, leikmaður Rúmeníu, á blaðamannafundi eftir sögulegan 2:0-sigur Íslands í viðureign þjóðanna á HM í íshokkí í Galati í gærkvöldi.

„Það eru einfaldlega leikir þar sem hlutirnir ganga ekki upp. Markvörðurinn þeirra átti góðan leik en við vorum ekki nógu einbeittir fyrir framan markið,“ sagði Botond og fyrirliðinn Roberto Gliga hafði svipaða sögu að segja.

„Þetta var jafn leikur og við fengum mörg færi en markvörður þeirra var góður í leiknum. Því miður koma dagar þar sem pökkurinn einfaldlega vill ekki fara inn og það getur verið mjög pirrandi. Nú er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram,“ sagði fyrirliðinn.

„Þetta var mjög erfiður leikur, bæði andlega og líkamlega, og við gáfum allt í þetta eins og í hinum leikjunum. En heppnin var hreinlega ekki með okkur í liði,“ bætti Florian Bocu við á blaðamannafundinum.

Botond Flinta, sem aldrei bjóst við að tapa, kemur pökknum …
Botond Flinta, sem aldrei bjóst við að tapa, kemur pökknum ekki framhjá Dennis Hedström í marki Íslands í leiknum í gærkvöldi. Ljósmynd/Sorin Pana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka