SA fékk skell í fyrsta leik

Skautafélag Akureyrar mátti þola tap.
Skautafélag Akureyrar mátti þola tap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skautafélag Akureyrar fékk skell í fyrsta leik sínum í 1. umferð Evrópukeppninnar í íshokkíi í Istanbúl í dag. Íslandsmeistararnir máttu þá þola 1:6-tap fyrir Rauðu stjörnunni frá Serbíu. 

Fyrirfram var Rauða stjarnan talin sterkasta liðið í riðlinum en auk SA og Rauðu stjörnunnar eru Irbis-Skate Sofia frá Búlgaríu og Zeytinburnu frá Tyrklandi einnig í riðlinum. 

Einar Kristján Grant skoraði mark SA á 18. mínútu er hann minnkaði muninn í 2:1. Sigurður Freyr Þorsteinsson átti stoðsendinguna. Serbneska liðið reyndist hins vegar of sterkt og skoraði tvö mörk í öllum þremur leikhlutnum. 

SA mætir Irbis-Skate Sofia á morgun kl. 11. Efsta lið riðilsins fer áfram í 2. umferð, en SA komst óvænt alla leið í 2. umferðina á síðasta ári með sigri í sínum riðli er leikið var í Sófíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert