Viljum endurtaka þetta saman

Erna Hákonardóttir og stöllur í Keflavík hafa leikið afar vel …
Erna Hákonardóttir og stöllur í Keflavík hafa leikið afar vel í vetur og eru tveimur stigum frá toppi Dominos-deildarinnar. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

„Ég var með Sverri í Njarðvík þegar við urðum bikarmeistarar 2012 og okkur langar bara til að endurtaka þetta saman,“ sagði Erna Hákonardóttir, leikmaður Keflavíkur, fyrir undanúrslitaleikinn við Hauka í Maltbikarnum í körfubolta.

Liðin mætast kl. 17 á morgun í Laugardalshöll en þremur tímum síðar mætast Snæfell og Skallagrímur. Úrslitaleikurinn er svo á laugardag. Keflavík hefur leikið afar vel í vetur og er aðeins tveimur stigum frá toppi Dominos-deildarinnar, en Haukar eru í 7. sæti. Það segir þó ekki alla söguna og Erna bendir á að Haukar hafi bætt sig eftir komu hinnar bandarísku Nashika Wiliams eftir áramót.

„Við erum bara spenntar. Það er heiður að fá að spila í Höllinni,“ sagði Erna við mbl.is, en þrátt fyrir að hún og þjálfarinn Sverrir Þór Sverrisson hafi kynnst því að vinna bikarmeistaratitilinn hefur hið unga lið Keflavíkur heilt yfir litla reynslu af því. Thelma Dís Ágústsdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir sátu þó til að mynda á varamannabekknum þegar Keflavík komst í úrslitaleikinn fyrir tveimur árum, er liðið tapaði fyrir þáverandi lærimeyjum Sverris í liði Grindavíkur:

Erna Hákonardóttir (númer 15, fyrir miðju) varð bikarmeistari undir stjórn …
Erna Hákonardóttir (númer 15, fyrir miðju) varð bikarmeistari undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar með Njarðvík árið 2012. Þau mæta nú aftur saman í Höllina. mbl.is/Eggert

„Nei, það eru nú mjög fáar af okkur sem hafa farið í úrslitaleik í meistaraflokki, en margar sem hafa farið í úrslitaleiki í yngri flokkum þó að það sé vissulega öðruvísi,“ sagði Erna sem hefur ekki áhyggjur af því að spennan beri sig eða aðra leikmenn Keflavíkur ofurliði í Höllinni:

„Við verðum bara að mæta tilbúnar til leiks og spila okkar leik ef við ætlum að komast í úrslitaleikinn. Það hefur verið stígandi í leik Hauka eftir að liðið fékk nýjan Bandaríkjamann. Við höfum unnið alla þrjá leikina við þær í vetur en síðasti leikur var mjög strembinn og við enduðum á að vinna með þremur stigum,“ sagði Erna.

Keflavík er sigursælasta lið bikarkeppni kvenna frá upphafi með alls 13 bikarmeistaratitla, eftir 21 bikarúrslitaleik frá árinu 1975.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert