Ég hef miklar áhyggjur af leiknum

Þorleifur Ólafsson handleikur hér verðlaunagripinn í bikarkeppninni eftir að Grindavík …
Þorleifur Ólafsson handleikur hér verðlaunagripinn í bikarkeppninni eftir að Grindavík varð bikarmeistari fyrir þremur árum með sigri á ÍR í úrslitaleik. mbl.is/Ómar

„Ég hef miklar áhyggjur af leiknum, út af því að þetta er Þór Þorlákshöfn sem við erum að fara að mæta,“ segir Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, fyrir undanúrslitin í Maltbikar karla í körfubolta sem fram fara í Laugardalshöll á morgun.

Grindavík og Þór mætast kl. 20 annað kvöld en Valur og KR eigast við í hinum undanúrslitaleiknum þremur tímum fyrr. Báðir leikirnir eru í Laugardalshöll líkt og úrslitaleikurinn á laugardag.

Grindavík og Þór hafa unnið sinn leikinn hvort í rimmum sínum í Dominos-deildinni í vetur og sitja þar í 4.-5. sæti, jöfn að stigum. Þorleifur býst við afar snúnum leik:

„Þeir töpuðu eiginlega fyrsta leiknum okkar í vetur [frekar en að við ynnum], skoruðu ekki í einhverjar sjö mínútur og við náðum að vinna með 2 stigum, og svo rúlluðu þeir okkur upp í næsta leik þar sem við vorum bara vandræðalegir á móti þeim. Við þurfum að eiga mjög góðan leik til að vinna Þórsarana,“ sagði Þorleifur.

Hörkulið með mjög góðan útlending

„Þeir eru með hörkulið og mjög góðan útlending [Tobin Carberry]. Í seinni leiknum við þá í deildinni vorum við að mínu mati svolitlir klaufar og þeir bara völtuðu yfir okkur. Við verðum að mæta tilbúnir,“ bætti hann við.

Þorleifur var í liði Grindavíkur þegar það varð síðast bikarmeistari fyrir þremur árum, en bikarsaga Grindvíkinga er talsvert lengri en Þórsara og hafa þeir gulu til að mynda leikið til úrslita fjórum sinnum á síðustu sjö árum. Þeir ættu því að þekkja fjalirnar í Laugardalshöllinni betur:

„Ég veit ekki hvort þetta hjálpar í undanúrslitunum. Þetta er öðruvísi fyrirkomulag núna [undanúrslit leikin í Laugardalshöll] og maður kemur bara svolítið ferskur inn í það. En þetta er vissulega í Höllinni og það kannski hjálpar okkur eitthvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert