Við erum allir orðnir þreyttir á þessu

Jón Arnór Stefánsson fékk skurð við aðra augabrúnina í leiknum …
Jón Arnór Stefánsson fékk skurð við aðra augabrúnina í leiknum við Val en þeim skurði var snarlega lokað. mbl.is/Golli

„Það er bikar í húfi og við erum að fara að mæta snælduvitlausir í Höllina á laugardaginn. Það er enginn að fara að rétta okkur bikarinn, við ætlum að ná í hann,“ sagði Jón Arnór Stefánsson eftir nauman sigur KR á Val í undanúrslitum Maltbikarsins í körfubolta í Laugardalshöll í dag.

KR-ingar lentu í miklum erfiðleikum gegn 1. deildarliði Vals og voru sex stigum undir þegar vel var liðið á 4. leikhluta. Þeir lönduðu þó að lokum fimm stiga sigri, 72:67. Jón kallar eftir hugarfarsbreytingu hjá leikmönnum KR:

„Við höfum verið að lenda í þessu í síðustu leikjum, að fara með þá fram á síðustu sekúndu í hörkuerfiðum leikjum. Þetta eru erfiðir andstæðingar sem spila af fullum krafti á meðan við erum ekki að spila vel. Við erum að reyna að rífa okkur upp og höfum verið að vinna í okkar hlutum. Það er einhver smástígandi í þessu, við erum að finna okkur aðeins, en það eru allt of mikil þyngsli í þessu hjá okkur,“ sagði Jón.

Erum hræddir við að tapa

„Við erum hræddir við að tapa, verðum stressaðir þegar við byrjum leikina ekki vel og erum ekki 20 stigum yfir. Þetta þarf að laga. Það þarf einhver hugarfarsbreyting að eiga sér stað. Ég er orðinn þreyttur á þessu og ég veit að liðsfélagar mínir eru orðnir þreyttir á þessu líka. En manni er ofboðslega létt og maður er ánægður að hafa unnið hérna í dag. Sérstaklega er ég ánægður með varnirnar okkar í lokin og hvernig við kláruðum leikinn. Það var sterkt,“ bætti Jón við.

„Við stöndum okkur vel þegar allt er undir. Við þurfum að spila eins og allt sé undir, allan tímann. Það er vandamálið. Við erum alltaf að spila á móti liðum sem við „eigum“ að vinna. Það er búið að „gefa“ okkur Íslandsmeistaratitilinn og bikarinn og við komum út í leikina með hangandi haus. Við erum alltaf álitnir betri aðilinn, það verður alltaf þannig, og við þurfum að vinna í því hvernig við höndlum það,“ sagði Jón. Hann hrósaði Valsliðinu fyrir sinn leik:

Mikil orka í Urald

„Þeir voru virkilega þéttir. Þeir eru með mjög góðan mann undir körfunni, Urald [King] er virkilega sterkur og það er mikil orka í honum. Hann reyndist okkur mjög erfiður. Þeir eru með góðan skotmann í [Austin Magnus] Bracey og stráka sem eru að hreyfa sig allan leikinn, „köttandi“ á körfuna og erfitt að dekka þá. Leikáætlun þeirra var mjög góð. Þeir gáfu okkur mikið af opnum skotum fyrir utan, en í staðinn var erfitt að keyra að körfunni. Við hittum ekki vel úr skotunum okkar í dag og þess vegna gekk þetta upp. Ef við hefðum sett niður helminginn af þessum skotum hefði þetta aldrei orðið leikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert