Maður virðir alltaf sigurinn

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar – og fyrrverandi þjálfari Þórs.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar – og fyrrverandi þjálfari Þórs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Maður virðir alltaf sigurinn og ég er ánægður að taka þessi tvö stig á móti liði sem ætlaði að koma og berjast fyrir lífi sínu í 40 mínútur,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, strax að leik loknum á Akureyri í kvöld.

Stjörnumenn unnu 13 stiga sigur og voru heilt yfir töluvert sterkara liðið. Hrafn var þó ekki alveg nægilega ánægður með spilamennsku sinna manna á köflum:

„Ég hefði viljað sjá okkur líta jafnvel út allar 40 mínúturnar. Mér fannst við þó stíga upp, sérstaklega varnarlega, þegar var farið að þrengja verulega að okkur í þriðja leikhluta. Við vorum að gera óþarfa byrjendamistök, með tapaða bolta og eitthvað í þeim dúr. Eitthvað sem við þurfum að hreinsa upp hjá okkur,“ sagði Hrafn.

Hrafn vildi ekki meina að ferðalagið hefði setið í sínum mönnum en oft og tíðum virkuðu þeir frekar rólegir og jafnvel kærulausir: „Þetta voru kannski fínir tveir leikir fyrir okkur, Þór og Valur, til þess að koma nýja gæjanum inn í þetta og hann er að verða mjög flottur hjá okkur,“ sagði Hrafn og átti þá við Darrell Combs sem skoraði 13 stig í kvöld.

Hrafn er fyrrverandi þjálfari Þórsara og sagði hann að mikil eftirsjá yrði af þeim úr deildinni, ef þeim tækist ekki að bjarga sæti sínu í síðustu fjórum umferðunum: „Mér sárnar að mögulega sjá eftir mínu gamla liði fara niður. Mér finnst alltaf gaman og gott að koma hérna norður og taka í hendurnar á vinum mínum og anda að mér norðlenska loftinu. Ef svo fer að þeir fara niður sé ég mikið eftir þeim,“ sagði Hrafn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert