„Á nálum allan leikinn“

Ægir Þór Steinarsson í undanúrslitaleiknum gegn ÍR.
Ægir Þór Steinarsson í undanúrslitaleiknum gegn ÍR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ægir Þór Steinarsson fékk það vandasama hlutverk að reyna að stöðva Elvar Má Friðriksson leikstjórnanda Njarðvíkur í úrslitaleik Geysis-bikarsins í körfuknattleik í Laugardalshöll í dag og fórst það býsna vel úr hendi. 

„Það er alls ekki létt og ekki í fyrsta skipti sem ég þarf að takast á við Elvar. Mér fannst okkur takast það ágætlega sem heild. En í raun er erfitt að eiga við alla þessa gæja hjá Njarðvík. Maður er einhvern veginn á nálum allan leikinn. Maður hefur alltaf áhyggjur af því að þeir nái að hitta úr nokkrum þristum í röð og allt fari í panikk hjá okkur. Við vorum rosalega meðvitaðir um að slíkt mætti ekki gerast. Við þurftum að halda þeim frá þriggja stiga skotum og halda þeim frá körfunni allan leikinn til að geta unnið.“

Ægir er uppalinn Fjölnismðaur en hefur áður orðið bikarmeistari með KR. Er einhver munur á því að vinna bikarinn með Stjörnunni eða KR? „Nei ekki þannig. Sami bikarinn og sama keppni. Tilfinningin er því sú sama en mikill léttir að ná að klára dæmið. Þessi tvö skipti sem ég hef spilað til úrslita þá hefur það verið mikil skemmtun. Stemningin var geggjuð hjá stuðningsmönnum beggja liða og fyirr það ber að þakka. Þegar enn var klukkutími í leik þá voru Njarðvíkingar búnir að fylla stúkuna sín megin,“ sagði Ægir þegar mbl.is tók hann tali. 

Garðbæingar fagna á áhorfendapöllunum í dag.
Garðbæingar fagna á áhorfendapöllunum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert