„Reyndi að skjóta eins fljótt og ég gat“

Sigurkarl Jóhannesson gerði út um leikinn í kvöld.
Sigurkarl Jóhannesson gerði út um leikinn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍR-ingurinn Sigurkarl Róbert Jóhannesson var ánægður með dagsverkið þegar mbl.is ræddi við hann í Frostaskjólinu í kvöld. Sigurkarl lék í átta mínútur gegn KR og tók sig til og skoraði sigurkörfuna um leið og leiktíminn rann út. 

Flestir ef ekki allir í húsinu töldu að Kevin Capers myndi eiga síðasta orðið en hann var klókur og lét boltann ganga og endaði boltinn niðri í horninu hjá Sigurkarli. Hann stillti miðið í flýti og brást ekki bogalistin á ögurstundu frekar en Vilhjálmi gamla Tell hér um árið. 

„Ég gat nú ekki mikið hugsað. Þetta var um það bil hálf sekúnda en eftir að ég sleppti boltanum var eins og þetta tæki tíu sekúndur. Fyrst fannst mér eins og skotið væri aðeins of langt en síðan sá ég boltann smella í netinu. Um leið réðust liðsfélagar mínir á mig og ég sá ekkert í nokkrar sekúndur,“ sagði Sigurkarl og hann sagðist ekki hafa verið með hreinu hversu mikið eða lítið var eftir af tímanum. 

„Ég var ekki klár á því og sá það ekki rétt áður en ég fékk boltann. En ég vissi að lítið var eftir þegar Kevin (Capers) var með boltann. Hann var fljótur að gefa á Trausta (Eiríksson) og Trausti gerði vel þegar hann gaf snögga sendingu á mig. Ég reyndi bara að skjóta eins fljótt og ég gat.“

ÍR-ingar hafa haft sérstakt lag á því að vinna útileikina í úrslitakeppninni og það gegn þremur frábærum liðum. ÍR vann tvo útileiki gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum, tvo gegn Stjörnunni í undanúrslitum og nú hefur liðið unnið tvo útileiki gegn KR í úrslitum. 

„Já það virðist vera. Vonandi breytist þetta í næsta leik og heimaliðið vinnur. En okkur virðist líða vel á útivelli og líða vel undir pressu. Í þessum leikjum hefur allt verið undir. Þá gefum við allt í þetta og sýnum hvað við getum. Við höfum alltaf trú á verkefninu hverju sinni,“ sagði Sigurkarl í samtali við mbl.is í kvöld. 

Stuðningsmenn ÍR í stuði á leiknum í kvöld.
Stuðningsmenn ÍR í stuði á leiknum í kvöld. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert