„Við vorum heppnir“

Borche fer yfir sviðið í leiknum í kvöld.
Borche fer yfir sviðið í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Borche Ilievski er einum sigri frá því að gera ÍR að Íslandsmeisturum karla í körfuknattleik í fyrsta skipti í 42 ár. ÍR sigraði KR í Frostaskjólinu í kvöld 89:86 og er 2:1 yfir í rímmunni. Borche sagði ÍR-inga hafa haft heppnina með sér. 

ÍR sigraði eftir framlengdan leik og flautukörfu. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var KR níu stigum yfir og ÍR-ingar virtust vera í hálfgerðum vandræðum í sókninni fram að því. 

„Við náðum góðri syrpu á lokakaflanum þar sem vörnin var góð. Mér fannst eins og KR-ingar hafi þá misst sjálfstraustið að einhverju leyti. Þeir voru að brenna af á vítalínunni og það hélt áfram hjá þeim í framlengingunni. Þegar uppi er staðið þá vorum við heppnir að þessu sinni og heppnin var aftur með okkur í framlengingunni. En mínír menn eru hugrakkir og eru í þessu af lífi og sál. KR er betra lið en við á pappírunum en við dveljum ekki við það og reynum allt sem við getum. Stundum vinnum við og stundum ekki. Við erum aðeins einu skrefi frá titlinum en gleymum ekki að það skref er risastórt. Við þurfum að nýta tækifærið í næsta leik á fimmtudaginn. Þá er okkar tækifæri,“ sagði Borche en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari og næsti leikur er í Seljaskóla á fimmtudaginn. Komi til oddaleiks þá verður hann á heimavelli KR hinn 4. maí. 

Borche hefur sýnt í úrslitakeppninni að hann er mjög taktískur enda hefur ÍR farið geysilega erfiða leið. Liðið hefur nú þegar slegið út Njarðvík og Stjörnuna á leið sinni í úrslitin. Mun hann draga kanínu upp úr hattinum í næsta leik?

„Ég undirbý mig fyrir hvern leik af kostgæfni og reyni að finna veikleika hjá KR eða öðrum andstæðingum hverju sinni. Ég reyni að nota alla þá vitsmuni sem mér voru gefnir í þetta verkefni. Ég var tilbúinn til að berjast um titilinn í fyrra einnig en uppákoman varðandi Ryan Taylor gerði þær vonir að engu. Nú fara allir mínir kraftar í úrslitarimmuna. Leikmennirnir finna fyrir meðbyr. Þeir skynja að þetta er okkar tækifæri. Þetta gæti verið ár ÍR. Hvernig sem fer þá hafa mínir menn spilað eins og meistarar. Við munum gera okkar besta í næsta leik,“ sagði Borche Ilievski í samtali við mbl.is í Frostaskjólinu í kvöld. 

Kevin Capers einn af lykilmönnum ÍR skorar tvö af 26 …
Kevin Capers einn af lykilmönnum ÍR skorar tvö af 26 stigum sínum í kvöld. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert