„Grípa og skjóta“

Finnur Atli fagnar sigri sinna manna í kvöld.
Finnur Atli fagnar sigri sinna manna í kvöld. mbl.is/Hari

Finnur Atli Magnússon átti frábæran leik í liði Íslandsmeistara KR þegar liðið bar sigurorð af ÍR í fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld.

Finnur Atli kom sterkur inn af bekknum og skoraði 15 stig og þar af fjórar þriggja stiga körfur.

„Þetta var seiglusigur. Við hentum frá okkur sigri í síðasta leik og það kom ekki til greina að gera það aftur. Ég man eftir úrslitaeinvígi við Snæfell hérna um árið þar sem allir leikirnir unnust á útivelli en það mun ekki gerast aftur. Ég get alveg lofað því,“ sagði Finnur Atli við mbl.is eftir leikinn sem spilaður var í frábærri stemningu í Hertz helli þeirra ÍR-inga í kvöld.

„DHL-höllin rúmar fleiri áhorfendur en hér í Seljaskóla og það verður stórkostleg stemning í Frostaskjólinu á laugardagskvöldið. Ég vona að fólk mæti í höllina klukkan fimm eftir að hafa fengið sér hádegismat á Kaffi Vest,“ sagði Finnur.

Þú fannst heldur betur fjölina þína í kvöld?

„Já bara eins og strákarnir segja alltaf við mig; grípa og skjóta. Ég veit alveg hvert hlutverk mitt er í liðinu. Ég er ekki að spila í 30 mínútur og ég er ekki jafn sterkur varnarlega og Julian og Kristófer. En það sem ég get boðið uppá er að draga stóru mennina aðeins út og þá opnast fyrir Mike, Bjössa og Jón að keyra á körfuna. Ef ég er skilinn eftir opinn þá tek ég skotið.“

„Ég vona að reynsla okkar og sigurhefð muni ráða úrslitum á laugardagskvöldið. Það á að telja en ÍR-ingarnir hafa heldur betur verið góðir í oddaleikjunum í þessari úrslitakeppni og maður gefur sér það að þeir verði alveg á milljón. Ég held að leikurinn á laugardaginn verði svipaður og þessi. Barátta fram á síðustu sekúndu. Við erum með gott teymi á bakvið okkur sem hjálpar okkur að ná í endurheimt. Við verðum klárir og ætlum okkur að lyfta bikarnum fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert