„Stýrðum svekkelsinu í rétta átt“

Helgi Már Magnússon og Kristófer Acox fallast í faðma í …
Helgi Már Magnússon og Kristófer Acox fallast í faðma í kvöld. mbl.is/Hari

KR-ingurinn Helgi Már Magnússon varð í kvöld Íslandsmeistari í körfuknattleik í sjöunda sinn þegar KR sigraði ÍR 3:2 í úrslitarimmunni. KR lenti 1:2 undir og Helgi segir það hafa ráðið úrslitum hversu vel KR-ingum gekk að glíma við mótlætið í þeirri stöðu. 

„Mér fannst ráða úrslitum hvernig við tókumst á við mótlætið. Við töpuðum leikjum númer eitt og þrjú á klaufalegan hátt. Við misstum Pavel og Jón meiðist og var ekki 100%. Við náðum einhvern veginn að stýra reiðinni og svekkelsinu í rétta átt. Við mættum tilbúnir í fjórða leik og náðum að klára dæmið. Þetta snýst um að finna leiðir til þess,“ sagði Helgi þegar mbl.is ræddi við hann í Frostaskjóli í kvöld. 

Nokkur umræða hefur verið um það í vetur að deildin hafi aldrei verið jafn sterk og í vetur og Helgi segir margt vera til í því. „Já hún var mjög sterk og fleiri góð lið. Í deildinni voru fleiri útlendingar og meiri gæði. Deildin var þrusugóð og erfið enda var tímabilið hjá okkur ströggl. Við enduðum í 5. sæti í deildinin og vorum í bölvuðu basli. Við náðum einhvern veginn að þjappa okkur saman og finna leiðir til að sigra,“ sagði Helgi sem flutti heim frá Bandaríkjunum um áramót. 

Hann var síðast með KR af fullum krafti þegar liðið varð Íslandsmeistari 2016. Í fyrra dúkkaði hann upp í úrslitakeppninni og reyndist KR afar vel í úrslitunum þegar fimmti sigurinn á Íslandsmótinu í röð varð staðreynd. Treysta liðsfélagar hans sér ekki til að vinna titilinn án þess að fá Helga frá Bandaríkjunum? „Eðlilega. Þeir þurfa einn 37 ára til að tryggja þetta,“ sagði Helgi og hló að spurningunni. 

Hann segist ætla að taka ákvörðun í sumar um framhaldið. Hann spili vegna leikgleðinnar nú orðið og ætlar ekki að stressa sig of mikið á hlutunum. „Nú er ég bara í þessu út af stemningunni. Spila með vinum mínum og hef gaman að því. Ég ætla bara að sjá til hverjir verða í liðinu og sjá hvað þessir elstu menn gera. Nú fer ég að sinna heimilinu enda búinn að vera fjarverandi á milli klukkan 17 og 20 hvern einasta dag. Maður skuldar pínu þar,“ sagði Helgi Már Magnússon í samtali við mbl.is. 

Helgi Már Magnússon kominn framhjá tveimur ÍR-ingum.
Helgi Már Magnússon kominn framhjá tveimur ÍR-ingum. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert