Vinskapur sem styrkir liðið

Lovísa Björt Henningsdóttir er komin aftur í Hauka.
Lovísa Björt Henningsdóttir er komin aftur í Hauka. mbl.is/Bjarni Helgason

„Ég var búin að ræða við einhver erlend lið en þegar Haukar höfðu samband þá taldi ég það skynsamlegasta kostinn á þessum tímapunkti,“ sagði Lovísa Björt Henningsdóttir, nýjasti leikmaður Hauka, í samtali við mbl.is is á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag. Lovísa skrifaði undir eins árs samning við Hauka en hún er að snúa aftur til Íslands eftir fimm ár í Bandaríkjunum þar sem hún hefur verið í námi.

„Það voru einhver lið frá Ítalíu, Þýskalandi og Spáni búin að hafa samband við mig en það er rétt skref, á þessum tímapunkti á mínum ferli, að koma heim. Ég er með risa Haukahjarta og hef fylgst mjög vel með liðinu síðan ég fór út árið 2014. Þegar ég var hérna síðast var ég á meðal yngstu leikmanna liðsins en núna er ég ein af þeim elstu og það hefur því mikið breyst. Við urðum bikarmeistarar síðast þegar að ég spilaði með liðinu og markmiðið er að bæta við fleiri titlum í ár.“

Lovísa telur að liðið hafi skort ákveðna reynslu á síðustu leiktíð en Haukar enduðu í sjötta sæti deildarinnar með 18 stig.

„Mér finnst við vera með mjög sterkt lið en það vantaði kannski aðeins upp á reynsluna í fyrra. Það er hins vegar verið að bæta það upp og ég er komin aftur, Auður Íris er komin aftur heim og svo eigum við eftir að bæta við okkur Kana líka og þá kemur enn þá meiri reynsla inn í hópinn.“

Lovísa segist hafa lært mikið á þeim fimm árum sem hún dvaldi í Bandaríkjunum þar sem hún spilaði síðast með Mar­ist-há­skólaliðinu. 

„Ég hef spilað úti í Bandaríkjunum, undanfarin fimm ár, og þar hef ég öðlast mjög dýrmæta reynslu en körfuboltinn þar er líkamlegri og hraðari en hér heima. Ég er að koma í lið þar sem allir leikmenn liðsins eru mjög nánir og við erum bestu vinir, innan sem utan vallar, og það gerir okkur að enn þá sterkara liði,“ sagði Lovísa í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert