Pavel til liðs við Valsmenn

Pavel Ermolinskij er orðinn leikmaður Vals.
Pavel Ermolinskij er orðinn leikmaður Vals. mbl.is/Bjarni

Pavel Ermolinskij er genginn til liðs við Val og mun leika með liðinu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næstu leiktíð en þetta staðfesti félagið á blaðamannafundi í Fjósinu á Hlíðarenda í hádeginu. Pavel skrifar undir tveggja ára samning við Valsmenn en hann kemur til félagsins frá KR.

Pavel hefur leikið með KR frá árinu 2013 og hefur hann orðið Íslandsmeistari með liðinu, sex ár í röð. Þá varð hann einnig Íslandsmeistari með liðinu 2011 og þá hefur hann þrívegis orðið bikarmeistari með Vesturbæingum. Hann hóf feril sinn með ÍA á Akranesi árið 1998 en lék með Skallagrími í Borgarnesi tímabilið 2001-2002.

Þá lék hann um tíma sem atvinnumaður í Frakklandi og á Spáni á árunum 2004 til ársins 2010 og í Svíþjóð með Sundsvall Dragons og Norrköping Dolphins á árunum 2011 til ársins 2013. Hann á að baki 70 landsleiki fyrir Íslands hönd en Valsmenn enduðu í níunda sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og rétt misstu af sæti í úrslitakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert