„Yfirspiluðu okkur á öllum sviðum“

Frá leik liðanna í Laugardalshöll í kvöld.
Frá leik liðanna í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var undrandi eins og blaðamaður á því hvernig lið Tindastóls var skilið eftir í síðari hálfleik í Laugardalshöllinni í kvöld. Stjarnan sigraði 98:70 og leikur til úrslita. 

„Í sjálfu sér þá yfirspiluðu þeir okkur í síðari hálfleik á öllum sviðum körfuknattleiksins. Þeir fengu að skora allt of auðveldar körfur og löbbuðu framhjá okkur fyrir utan sem skilaði þeim auðveldum hlaupum að körfunni trekk í trekk. Við þurfum að gera betur en þetta, það er á hreinu. Vandamálið er að við hleypum þeim í of auðveldar aðgerðir og það þurfum við að laga,“ sagði Baldur í samtali við mbl.is að leiknum loknum. 

Í hléi virtist ekkert annað vera í spilunum en að leikurinn yrði jafn en að loknum jöfnum fyrri hálfleik var staðan 45:43 fyrir Stjörnuna. Kom það Baldri ekki á óvart hvernig úr þessu spilaðist? 

„Þegar þeir náðu áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks þá bjóst ég bara við því að við næðum áhlaupi til baka. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við að sjá það sem gerðist hérna í seinni hálfleik. Er þetta eitthvað sem við höfum ekki sýnt í vetur. Einhvern veginn náðum við aldrei að finna taktinn í síðari hálfleik en þeir héldu áfram sínu áhlaupi. Þessi taktur í leiknum hélt áfram sama hvað við reyndum. En vert er að nefna að við skutum tíu fleiri skotum en þeir í leiknum. Okkar skotnýting var 34% og það er ekki vænlegt til árangurs. Að sama skapi hitti Stjarnan á góðan leik,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson.  

Baldur Þór Ragnarsson.
Baldur Þór Ragnarsson. mbl.is/Þórir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert