Spilaði sinn fyrsta leik í tvö og hálft ár

Jonathan Isaac er þakklátur fyrir að hafa getað snúið aftur …
Jonathan Isaac er þakklátur fyrir að hafa getað snúið aftur á körfuboltavöllinn. AFP/Mike Ehrman

Jonathan Isaac, framherji Orlando Magic, lék í nótt sinn fyrsta leik fyrir liðið í tvö og hálft ár þegar hann skoraði tíu stig í 113:98-sigri á Boston Celtics í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Isaac sleit krossband í leik með Orlando 2. ágúst árið 2020. Hann var þá 22 ára en er nú 25 ára og kvaðst nokkrum sinnum hafa efast um að snúa nokkurn tímann aftur á parketið.

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hafi ekki efast. Ég hugsaði með mér: „Ég veit ekki hvort ég vilji halda áfram.“

En aftur á móti gaf Guð mér tilgang. Ég fæddist til þess að spila körfubolta þannig að ég ætlaði að klára endurhæfingarferlið hvað sem aðrir sögðu,“ sagði Isaac í samtali við heimasíðu NBA.

Auk þess að skora tíu stig tók Isaac þrjú fráköst og stal tveimur boltum á þeim tíu mínútum sem hann lék í nótt.

mbl.is