Ekki misst af leik á ferlinum

Mikal Bridges.
Mikal Bridges. AFP/Elsa

Mikal Bridges, leikmaður Brooklyn Nets, hefur náð þeim undraverða árangri að hafa ekki misst af einum einasta leik á ferli sínum í NBA-deildinni í körfuknattleik til þessa.

Hinn 27 ára gamli Bridges er á sínu sjötta tímabili í deildinni og hefur leikið alls 474 leiki í röð í deildakeppninni fyrir Phoenix Suns og Brooklyn, ásamt því að spila 39 leiki í úrslitakeppni þegar lið hans hafa komist þangað.

Hann hefur því enn ekki misst af leik á ferli sínum í deildinni og er sá leikmaður sem er langefstur á lista yfir spilandi leikmenn í NBA-deildinni sem hafa leikið flesta leiki í röð, en er þó enn víðs fjarri þeim leikmanni sem á metið.

A.C. Green, sem spilaði fyrir LA Lakers, Phoenix, Dallas Mavericks og Miami Heat, lék hvern einasta leik yfir 15 ára skeið frá 1986 til 2001 á 16 ára ferli sínum Í NBA-deildinni.

Green lék þá 1.192 leiki í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert