Fyrsta sundkonan sem vinnur sjö medalíur

Emma McKeon stóð sig stórkostlega á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Emma McKeon stóð sig stórkostlega á Ólympíuleikunum í Tókýó. AFP

Ástralska sundkonan Emma McKeon varð í nótt fyrsta konan til að vinna sjö verðlaunapeninga í sundi á Ólympíuleikum og aðeins önnur konan yfir allar greinar til að vinna svo mörg verðlaun á einum leikum þegar hún bætti tveimur gullmedalíum í safnið á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt.

McKeon hefur nú lokið keppni og yfirgefur Tókýó með fjórar gullmedalíur og þrjár bronsmedalíur.

Eina konan sem hefur unnið til sjö verðlauna á einum Ólympíuleikum á undan henni er sovéska fimleikakonan Maria Gorokhovskaya, sem hún gerði árið 1952.

Michael Phelps, Mark Spitz og Matt Biondi eru einu sundmennirnir sem hafa unnið til sjö eða fleiri verðlauna á einum leikum. Phelps  er þar í sérflokki þar sem hann vann til átta verðlauna á leikunum árið 2004 og einnig árið 2008.

„Ég lít til þessa íþróttafólks sem hefur komið á undan mér og ég hef hrifist svo mikið af því sem það hefur afrekað og það hefur veitt mér innblástur, en ég hef í rauninni aldrei litið til tölfræðinnar þegar kemur að fjölda verðlaunapeninga.

Þetta er heiður því ég veit sem er að ég hef lagt mjög hart að mér til þess að ná þessum árangri,“ sagði McKeon glaðbeitt við BBC Sport í nótt.

mbl.is