Guðbjörg nokkuð nálægt eigin Íslandsmeti

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir reyndist hlutskörpust í 60 metra hlaupi kvenna.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir reyndist hlutskörpust í 60 metra hlaupi kvenna. mbl.is/Óttar Geirsson

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR kom fyrst í mark í 60 metra hlaupi kvenna innanhúss á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna í frjálsíþróttahöllinni í Laugardalshöll í dag.

Guðbjörg Jóna hjó nokkuð nærri eigin Íslandsmeti sem hún setti fyrir tæpum tveimur vikum á Sprint N’ Jump mótinu í Árósum.

Í dag kom hún í mark á 7,42 sekúndum, en tíu daga gamalt Íslandsmet hennar er 7,35 sekúndur.

Í öðru sæti var Naomi Sedney úr FH á 7,44 sekúndum og þriðja var hin enska Leonie Ashmeade á 7,51, sem er hennar besti árangur á ferlinum.

mbl.is