ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

86 Creditinfo Lánstraust hf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 85
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta
Starfsemi Innheimtuþjónusta og upplýsingar um lánstraust
Framkvæmdastjóri Brynja Baldursdóttir
Fyrri ár á listanum 2010-2018
Ávallt framúrskarandi Framúrskarandi 2019

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 1.153.266
Skuldir 510.572
Eigið fé 642.694
Eiginfjárhlutfall 55,7%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 2
Endanlegir eigendur 9
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Önnur þjónusta við atvinnurekstur

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Heilbrigðismerki fyrir íslenskt viðskiptalíf

Brynja Baldursdóttir er framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.
Brynja Baldursdóttir er framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi. Ljósmynd/ Ólafur Már

Áratugur er liðinn frá því að Creditinfo kynnti í fyrsta sinn lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og fjöldi fyrirtækja á listanum hefur vaxið gríðarlega. Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi, segir ánægjulegt að skyggnast yfir þessa þróun. Aðspurð segir hún einnig að þetta framtak fyrirtækisins hafi skipt máli við endurreisn íslensks efnahagslífs eftir árið 2008.
„Það er mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert og það er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að það séu góð og traust fyrirtæki í rekstri í landinu. Þetta verkefni vekur athygli á því og verðlaunar þau fyrirtæki sem standa sig vel. Það er áhugavert að sjá hvernig fjöldinn á listanum endurspeglar tíðarfarið að öðru leyti. Þegar við kynntum listann fyrst þá voru hrunárin inni í úttektinni sem eðlilega hafði mikil áhrif. Í kjölfarið jókst fjöldinn á listanum þar til ákveðnu jafnvægi var náð fyrir tveimur til þremur árum. Það er í takti við stöðu hagkerfisins í heild.“


Fyrirtækjunum fjölgar enn


Með sama hætti segir Brynja afar ánægjulegt að sjá að fyrirtækjunum hefur ekki fækkað á listanum í ár, þótt að nokkru leyti hafi gefið á bátinn í íslensku hagkerfi á síðasta ári. Spurð út í hvaða áhrif listinn hafi segir hún að þau séu af fleiri en einum toga.


„Ég held að það sé misjafnt eftir fyrirtækjum hvað þau fá út úr því að vera á listanum. Fyrir mörg fyrirtæki skiptir þetta miklu upp á það hvaða kaup og kjör þau fá, bæði í viðskiptum hér heima og erlendis. Það að vera á þessum lista er ákveðinn gæðastimpill og við vitum að þessi fyrirtæki hafa fengið betri eða meiri fyrirgreiðslu út á það. Við höfum líka heyrt af því að fyrirtæki hafi verið að nýta þessa viðurkenningu fyrir innri markaðssetningu á sínum vettvangi. Þetta getur virkað sem gott verkfæri til að efla traust starfsfólks til fyrirtækisins og einnig getur þetta ýtt undir liðsheild og samstöðu innan vinnustaða. Við þekkjum það öll að þó við vitum sjálf að við séum að gera vel þá er gaman þegar aðrir taka eftir því eða vakin er athygli á því.“

Um 1.000 manns mættu á viðburðinn í Hörpu árið 2018.
Um 1.000 manns mættu á viðburðinn í Hörpu árið 2018.


Brynja segir að listinn virki sem gæðastimpill og að það sé orðið eftirsótt að komast á listann til að njóta hans.


„Fyrirtæki hringja í okkur og byrja að grennslast fyrir um það hvort þau séu ekki örugglega á listanum löngu áður en hann er gefinn út. Við fáum símtöl frá fjármálastjórum og endurskoðendum sem eru ábyrgir fyrir því að senda inn ársreikninga fyrir hönd fyrirtækja. Þeir vilja þá kanna hvort við höfum ekki örugglega fengið gögnin í hendur,“ segir Brynja.


Verða að skila inn á réttum tíma


Hún bendir á að eftir að það skilyrði var sett inn í verkefnið að fyrirtæki þyrftu að virða skilafrest á ársreikningum þá hafi það haft áhrif. Með því setji skilyrði af þessu tagi visst aðhald á fyrirtæki sem leggi upp úr því að uppfylla kröfurnar til framúrskarandi fyrirtækja.
„Fyrirtæki eru einfaldlega ekki framúrskarandi nema þau fylgi lögum um ársreikningaskil að okkar mati. Þess vegna eru engin fyrirtæki á listanum hjá okkur sem trassa það að skila inn reikningum á réttum tíma.“


Verkefnið hefur undið upp á sig á síðustu árum en fyrirmyndin að því er sótt til Finnlands.
„Upphaflega sóttum við hugmyndina þangað. Það kom þannig til að Nora Kerppola, sem er frá Finnlandi og hefur setið lengi í stjórn Creditinfo, benti okkur á verkefni af þessum toga þar í landi. Við ákváðum að láta slag standa. Creditinfo er reyndar starfandi í ríflega 20 löndum og í þremur öðrum löndum utan Íslands erum við með svipuð verkefni í gangi en það er í Eystrasaltsríkjunum þremur. Umfang verkefnisins í Litháen og Eistlandi er svipað og hér. Það er gaman að sjá samhljóminn í þessum verkefnum, þau eru lík að mörgu leyti en svo taka þau talsvert mið af aðstæðum í hverju landi fyrir sig einnig.“


Fyrsta árið sem listinn var gefinn út, þ.e. fyrir rekstrarárin 2007-2009, voru aðeins 177 fyrirtæki sem komust á listann. Síðan þá hefur verkefnið undið hressilega upp á sig.


„Þetta var allt smærra í sniðum. Þá leigðum við stórt fundarherbergi á Grand Hótel undir viðburðinn og það mættu um 50 manns. Nú í ár, líkt og síðustu ár, höfum við haldið hátíðina í Hörpu og um þúsund manns mætt á svæðið. Þá er öll umfjöllun um listann og fyrirtækin á honum auðvitað orðin mun meiri. Okkur finnst raunar að besta viðurkenningin á þessu verkefni sé hversu mikilvægt fyrirtækin telja að vera á þessum lista. Það staðfestir að hann er mikils virði.“


Öflugt samstarf við miðla Árvakurs


Að þessu sinni efnir Creditinfo til samstarfs við Morgunblaðið um umfjöllun um fyrirtækin sem reynast framúrskarandi. Er þetta í þriðja sinn sem það er gert og á dögunum undirritaði Brynja samstarfssamning við Harald Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins og framkvæmdastjóra Árvakurs, um áframhaldandi samstarf fyrirtækjanna tveggja. Brynja segir að það hafi gefið góðan ávöxt.


„Með samstarfinu við Morgunblaðið hefur verkefnið vaxið enn frekar. Það má segja að verkefnið þroskist ár frá ári og við leitum sífellt leiða til þess að efla það og festa betur í sessi. Með aðkomu miðla Árvakurs að umfjölluninni hefur dreifingin á sérblaðinu orðið enn meiri og þá tókum við í fyrra í notkun sérstakan vef sem hýstur er á mbl.is sem helgaður er þeim fyrirtækjunum sem eru á listanum. Nú hefur þessi vefur verið uppfærður og þar er hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar um fyrirtækin og verkefnið sem slíkt. Sú nálgun ásamt því að tryggja aðgengi að öðrum miðlum Árvakurs tryggir að verkefnið nær til allrar þjóðarinnar. Meira að segja viðburðurinn í Hörpu er í beinni útsendingu á mbl.is,“ segir Brynja.


Nýsköpun og samfélagsábyrgð


Síðustu ár hefur Creditinfo einnig veitt fyrirtækjum sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun og samfélagsábyrgð. Brynja segir að það sé orðinn mikilvægur þáttur í tengslum við Framúrskarandi fyrirtæki.


„Þetta eru mál sem eru okkur mjög hjartfólgin og við teljum skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf. Við vildum nota þennan vettvang til þess að vekja athygli á mikilvægi þessara mála. Eins og staðan er í dag er erfitt að leggja með beinum hætti mat á samfélagsábyrgð hvers og eins fyrirtækis og eins framlag þeirra til nýsköpunar. Þess vegna fórum við þessa leið, þ.e. að kalla saman dómnefnd sem velur eitt fyrirtæki í hvorum flokki fyrir sig sem dómnefndin telur standa sig framúrskarandi vel.“

Framúrskarandi fyrirtæki eru 874 talsins 2019 en þau voru 865 …
Framúrskarandi fyrirtæki eru 874 talsins 2019 en þau voru 865 í fyrra.


Dómnefndarstarfið er ekki aðeins á höndum Creditinfo heldur er það unnið í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og Icelandic Startups.


„Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá hvernig dómnefndirnar hafa þróað mælikvarðana áfram við mat á fyrirtækjunum. Þau byggja í sífellt meiri mæli á gögnum og mælingum sem er mjög góð þróun. Enn í dag er þetta ekki orðið þannig að við getum keyrt út lista sem mælir þessa hluti en kannski gerist það einhvern daginn,“ segir Brynja.


Sérfræðingar Creditinfo eru búnir að liggja yfir ársreikningum íslenskra fyrirtækja allt frá því þeir tóku að berast um mitt árið. Brynja segir alltaf ákveðna eftirvæntingu að sjá hvað niðurstöður hvers árs bera með sér. Sumt sé mjög ánægjulegt að sjá en aðrar mælingar veki eðlilega spurningar.


„Fjöldi fyrirtækja á listanum eykst aðeins milli ára. Það er afar ánægjulegt ekki síst í ljósi þess að margir töluðu um að árið 2018 hefði verið krefjandi í íslensku viðskiptalífi og þá sáum við einnig að fyrirtækjunum fækkaði örlítið milli áranna 2016 og 2017.“


Hún segir raunar að fyrir nokkrum árum hafi þær raddir heyrst að það væri ekki endilega góð þróun fyrir þetta verkefni að of mörg fyrirtæki kæmust á listann. Jafnvel yrði það ekki eins spennandi að komast á hann ef fyrirtækin yrðu fleiri en 1.000.


„Ég er ekki sammála þeirri nálgun. Við eigum að fagna því þegar fyrirtækjunum fjölgar. Það er heilbrigðismerki fyrir íslenskt samfélag enda skilyrðin fyrir því að komast á listann mjög ströng og því aðeins öflug fyrirtæki sem komast á hann.“


Byggingariðnaður og ferðaþjónusta


Meðal þess sem listinn leiðir í ljós nú í ár er að fyrirtækjum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu fjölgar milli ára á honum. Einhver kann að reka upp stór augu við þau tíðindi en Brynja segir að fyrir því kunni að liggja ofureinfaldar ástæður.


„Þetta eru geirar sem hafa verið í miklum vexti. Það kann að skýra þessa þróun að fyrirtæki komast ekki á listann nema þau hafi uppfyllt öll skilyrðin í þrjú ár hið minnsta. Eflaust hafa mörg fyrirtæki í þessum geirum þurft þann tíma til þess að sanna sig út frá þessum mælikvörðum og eru því fyrst núna að komast inn á listann.“


Á sama tíma og hægt er að fagna því að fyrirtæki á þessum mörkuðum hafa sótt í sig veðrið eru aðrar tölur sem stinga nokkuð í augun að mati Brynju.


„Það sem er virkilega leiðinlegt að sjá er að kynjahlutföllin eru ekki að skána. Ef við horfum til stjórna framúrskarandi fyrirtækja þá er hlutfallið rétt rúm 24% og er búið að vera næstum það sama öll árin frá því að við fórum að gefa út listann. Þá er þetta hlutfall ekki hærra hjá framúrskarandi fyrirtækjum en fyrirtækjum almennt í landinu. Þá er afar leitt að sjá að framkvæmdastjórar í framúrskarandi fyrirtækjum eru aðeins í 12% tilvika konur meðan hlutfallið er um 24% í fyrirtækjum almennt. Þetta endurspeglar auðvitað bara stöðuna í íslenskum fyrirtækjum almennt og er óþolandi að skuli ekki vera að sigla í rétta átt þrátt fyrir alla þá umræðu og kynjakvóta sem eru í gangi.“


Á hverju ári koma einhver ný fyrirtæki inn á listann í fyrsta sinn sem þau eiga þess nokkurn kost, þ.e. þegar þau hafa náð þriggja ára starfstíma. Í ár eru þau fjögur talsins. Brynja segir það í raun ákveðið afrek að komast inn á listann svo skömmu eftir stofnun. Þá sé einnig ánægjulegt að sjá að í ár eru fimm fyrirtæki sem komast inn á listann fjórum árum eftir að þau voru stofnuð og að það sé ekki lítið afrek heldur.


Svo er það annar hópur fyrirtækja sem Brynju þykir vert að nefna. Það eru fyrirtækin sem hafa vermt sæti á listanum öll árin sem hann hefur verið gefinn út.


„Það eru 69 fyrirtæki sem alltaf hafa verið á listanum. Það er ótrúlegur árangur miðað við að inn á listann hafa náð 1.536 fyrirtæki einhvern tíma á þessu tíu ára tímabili. Það sem einkennir þessi fyrirtæki, sem flest eru gamalgróin er að þau sigldu betur í gegnum hrunið en önnur.“


Snýst ekki um að græða sem mest


Á listanum er alltaf einhver hreyfing milli ára og mörg fyrirtæki hafa dottið inn og út af honum í gegnum árin.


„Þetta sjáum við m.a. í því að nú í ár eru það 20 fyrirtæki sem koma inn á listann en hafa einhvern tíma áður verið á honum. Það þarf að hafa fyrir því. Ef þau hafa dottið út þá hafa þau þurft að eiga framúrskarandi rekstrarár næstu þrjú ár á eftir til að endurheimta stöðu sína á listanum,“ segir Brynja en hún ítrekar að listinn gangi ekki út á að hampa sérstaklega fyrirtækjum sem græði mest.


„Þetta snýst um að hafa jákvæða rekstrarniðstöðu, fá einkunnina 1-3 í lánshæfismati hjá okkur, skila ársreikningi á réttum tíma, hafa skilað rekstrarhagnaði og jákvæðri ársniðurstöðu þrjú ár í röð og hafa eignir yfir 100 milljónir króna árin 2018 og 2017 og 90 milljónir árið 2016. Þetta snýst því öðrum þræði um stöðugleika. Það geta margir náð hagnaði í eitt og eitt ár en að halda þessum mælikvörðum réttum megin við strikið yfir lengra tímabil er framúrskarandi í okkar huga.“


Spurð út í framþróun verkefnisins segir Brynja að ýmsar leiðir séu þekktar til að efla lista af þessu tagi. M.a. séu dæmi um að bankar hafi komið að samstarfi sem þessu þar sem sérstök kjör bjóðist þeim aðilum sem komist inn á listann. Hún segir þó að sú nálgun henti ekki endilega hér enda leggi Creditinfo höfuðáherslu á að vottunin sem í listanum felst sé hlutlaus.


„Það er ekki hægt að kaupa sig inn á þennan lista með neinum hætti. Sumir halda að þetta snúist um það vegna þess að þau fyrirtæki sem vilja nýta sér vottunina greiða fyrir það ákveðið gjald. En öll fyrirtæki á Íslandi sem raunverulega uppfylla skilyrðin eru á þessum lista. Hitt snýst bara um það hvort vilji sé til þess að hampa þeirri staðreynd eða ekki,“ segir Brynja.


Það hefur verið mikill handagangur í öskjunni á vettvangi Creditinfo síðastliðnar vikur við að setja listann saman og Brynja segir að það liggi mörg handtök að baki. Tölvunarfræðingar, stærðfræðingar og viðskiptafræðingar vinna að því að koma listanum í endanlegt horf og hún segir að allt kapp sé lagt á að hann sé pottþéttur.


„Þetta verður að vera 100% því annars er lítils virði að vera á lista af þessu tagi. Aðeins fyrirtæki sem raunverulega uppfylla skilyrðin mega komast inn á hann. Við höfum því miður séð í viðlíka verkefnum hér á landi að fyrirtæki hafa komist inn á úrvalslista fyrirtækja jafnvel þótt þau séu í raun gjaldþrota. Það er vont ef þannig er staðið að málum. Það vill ekkert öflugt fyrirtæki vera á lista með öðrum fyrirtækjum þar sem ekki stendur steinn yfir steini.“


Skiptir marga máli


Brynja segir að ein skemmtilegasta birtingarmynd verkefnisins sé sú þegar fyrirtækin hampi viðurkenningunni með frumlegum hætti.


„Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá viðurkenningarnar uppi á vegg hjá fyrirtækjunum. Einu sinni kom ég við á bensínstöð þar sem búið var að hengja upp mynd af starfsfólkinu þar sem það hélt á viðurkenningunni. Það fannst mér lýsa stolti yfir því að hafa verið á listanum. Þá man ég eftir því eitt sinn þegar fyrirtækjastjórnandi sem ég þekki lenti í því eitt árið að detta út af listanum. Honum fannst það ekki mikið mál í sjálfu sér þegar hann frétti af niðurstöðunni og sagðist alveg vita sjálfur að fyrirtækið væri í traustum rekstri. Skömmu síðar hitti ég hann og þá fór hann að grennslast fyrir um hvernig fyrirtækið gæti unnið sig inn á listann að nýju. Þá hafði starfsfólkið gert athugasemdir við að fyrirtækið hafi dottið út. Fólk spurði einfaldlega: hvað veldur því að við erum ekki lengur framúrskarandi?“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar