ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

486 Loftmyndir ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 46
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi
Starfsemi Starfsemi á sviði landmælinga; jarðfræðilegar rannsóknir
Framkvæmdastjóri Karl Arnar Arnarson
Fyrri ár á listanum 2015, 2017, 2018
Framúrskarandi 2019

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 150.219
Skuldir 30.417
Eigið fé 119.802
Eiginfjárhlutfall 79,8%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 5
Endanlegir eigendur 17
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Verkfræðistarfsemi og skyld tæknileg ráðgjöf

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Klikkuð hugmynd sem gekk upp

Karl Arnar Arnarson er framkvæmdastjóri Loftmynda og einn af eigendum …
Karl Arnar Arnarson er framkvæmdastjóri Loftmynda og einn af eigendum fyrirtækisins. Haraldur Jónasson/Hari

Loftmyndir eru eitt þeirra fyrirtækja hér á landi sem eiga í samkeppni við hið opinbera, og nú nýlega skilaði samkeppnisaðilinn, Landmælingar Íslands, frá sér þarfagreiningu vegna undirbúnings á útboði fjarkönnunarmynda og hæðarlíkans af Íslandi.

Eins og Karl Arnar Arnarson, framkvæmdastjóri Loftmynda og einn eigenda fyrirtækisins, útskýrir hyggst ríkið bjóða sömu þjónustu og Loftmyndir veita nú þegar og gefa öllum ókeypis aðgang. „Við höfum þurft að keppa við íslenska ríkið í gegnum árin og nú hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið falið undirstofnun sinni, Landmælingum Íslands, að gera það sama og við erum að gera, að fara í myndatökuverkefni og safna loftmyndum og hæðarupplýsingum í beinni samkeppni við okkur,“ segir Karl Arnar.

Loftmyndir endurnýjuðu nýlega myndavél sem starfsemin byggir á og kostaði …
Loftmyndir endurnýjuðu nýlega myndavél sem starfsemin byggir á og kostaði hún um 100 milljónir króna. Haraldur Jónasson/Hari

Hann segir að það sé sama hvernig á þetta mál sé litið, ákvörðunin sé mjög einkennileg. „Þarna hyggst ríkið safna gögnum sem nú þegar eru til og borga fyrir það með stofnframlagi sem er 30-40 sinnum það sem það greiðir nú árlega fyrir aðgang að þessum sömu gögnum, eða allt að 1,8 milljarða króna og viðhalda síðan gögnunum eftir það með árlegum kostnaði sem er þrisvar sinnum hærri upphæð en það kostar ríkið í dag.“

Karl segir að Loftmyndir, sem voru með tekjur upp á tæpar 250 milljónir króna í fyrra, fái árlega um 50-60 milljónir króna fyrir þjónustu sína við stofnanir ríkisins, sem er stærsti einstaki viðskiptavinurinn.

„Flestar ríkisstofnanir sem hafa einhverjar kortaþarfir eru í viðskiptum við okkur. En forsvarsmenn þessa nýja verkefnis eru meira að segja svo ósvífnir að segja að ein af forsendunum fyrir þessari vegferð sé sú að ná eigi fram hagkvæmari nýtingu á ríkisfé. Þetta segja menn á sama tíma og verið er að leggja til að margfalda útgjöldin og fara í mjög áhættusamt verkefni sem óvíst er hvort nokkurntímann takist að klára.“

Vilja að þjónustan sé ókeypis

Spurður um röksemdir ríkisins fyrir því að fara út í slíkt verkefni, segir Karl að þær séu að gögnin sem út úr þessu koma eigi að vera ókeypis fyrir alla. Ríkið eigi einfaldlega að leggja þetta til, og nota til þess skattfé. Eðlilega sé því ekki um „ókeypis“ þjónustu að ræða. „Þarna vaða menn áfram eins og fíll í postulínsbúð.“

Loftmyndir ljósmynda 10-15% af Íslandi á hverju einasta ári.
Loftmyndir ljósmynda 10-15% af Íslandi á hverju einasta ári.

Karl segir að sú vinnsla sem ríkið ætlar að fara út í með þessu verkefni sé mjög sérhæfð, og til hennar þurfi mjög sérhæfðan tölvubúnað og þekkingu, sem enginn nema Loftmyndir búi yfir hér á landi. „Þróunin mun þá líklega verða sú sama og gerst hefur víða annars staðar, sem er að verkefnið verður unnið af ódýru vinnuafli frá Austur-Evrópu eða Asíu og sérhæfð þjónusta í kortagerð á Íslandi leggist af í kjölfarið.“

Spurður nánar um viðskiptavinahópinn segir Karl að hann skiptist í meginatriðum í þrennt. Opinberar stofnanir séu fjórðungur viðskiptavina, einkafyrirtæki fjórðungur og aðrir séu einstaklingar og sveitarfélög. Þar á meðal er erlend heildsölugagnaveita sem veitir upplýsingum í GPS-tæki í bílum. „Þetta eru upplýsingar um vegakerfið og staðsetningar á áhugverðum stöðum til að stoppa á, t.d. sundlaugar, bankar, veitingastaðir og annað. Við sendum uppfærðan gagnapakka árlega til þeirra.“

Karl segir að mikill meirihluti íslenskra sveitarfélaga sé í viðskiptum. „Við sjáum um að útvega þeim með reglubundnum hætti loftmyndir og hæðarupplýsingar. Reykjavíkurborg fær þannig til dæmis nýjar myndir af sínu svæði árlega. Þessi reglubundna þjónusta gerir okkur kleift að skipuleggja okkur langt fram í tímann.“

Myndir megi ekki úreldast

Starfsemi Loftmynda gengur að miklu leyti út á skipulagðar myndatökur, eins og Karl útskýrir. „Við tökum ekki eingöngu myndir af svæðum sem við erum með samninga um, heldur myndum við allt Ísland með reglubundnum hætti til að passa upp á að myndirnar úreldist ekki.“

Karl Arnar segir að nú sé sótt að fyrirtækinu og …
Karl Arnar segir að nú sé sótt að fyrirtækinu og tilraun gerð til að ríkisvæða þá þjónustu sem það veitir. Haraldur Jónasson/Hari

Karl segir að mjög vel hafi gengið að ljósmynda í sumar, enda hafi tíðin verið góð, einkum sunnan- og vestanlands. „Við náðum að mynda yfir 20% af öllu landinu. Við högum alltaf seglum eftir vindi í þessum efnum, enda eru alltaf sveiflur í veðurfarinu.“

Hann segir að að jafnaði nái fyrirtækið að mynda 10-15% landsins á hverju ári. Að auki séu 90 þéttbýlisstaðir myndaðir sérstaklega, á 1-4 ára fresti, svo alltaf séu til nýjar eða nýlegar myndir af þeim stöðum.

Loftmyndir reka einnig svokallaða kortasjá, en það eru vefkort sem t.d. mörg sveitarfélög eru með inni á sínum heimasíðum þar sem er að finna margvíslegar upplýsingar, sem þau geta birt sjálfvirkt á sinni útgáfu af kortasjánni. Eitt af því sem vakti athygli hjá blaðamanni var að hægt var að skoða staðsetningar og ítarupplýsingar um umferðaróhöpp í sveitarfélögunum. „Íbúar geta farið þarna inn og séð t.d. teikningar af húsum, eða hvar lagnirnar liggja inn í húsin. Einnig má sjá borholur, fornleifar og margt fleira. Við rekum allt í allt um 130 kortasjár. Þetta er eitt af því sem myndi þurrkast út ef ríkisvæðingin nær fram að ganga.“

Seldi húsið sitt

Blaðamanni leikur hugur á að vita hvernig hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað. Karl segir að faðir hans, Örn Arnar Ingólfsson, hafi stofnað fyrirtækið, en áður hafi þeir feðgar selt verkfræðingum og arkitektum hugbúnað, en kort hafi vantað. „Við höfðum samband við Landmælingar á þessum tíma og vildum fá samning um kaup á gögnum þaðan, sem þeir voru ekki tilbúnir í. Þá ákváðum við að fara sjálfir af stað. Pabbi seldi húsið sitt og notaði peninginn í fyrirtækið. Það var hálfklikkuð hugmynd, en hún gekk upp því þörfin var svo mikil.“

Karl segir að í dag sé varla stungið niður skóflu, eða vegur byggður, snjóflóðagarður eða stífla, án þess að gögn Loftmynda komi eitthvað við sögu.

Loftmyndir eru í dag Framúrskarandi fyrirtæki. Reksturinn er stöðugur, skuldlaus og félagið rekið með ágætum hagnaði.

Spurður um búnaðinn sem fyrirtækið notar, segir Karl að notuð sé myndavél á stærð við frystikistu, sem fyrirtækið eigi sjálft, en nýverið hafi hún verið endurnýjuð fyrir 100 milljónir króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar