Íslenskir aðilar kaupa meirihluta í búlgarskri lyfjaverksmiðju

Pharmaco hf. og Amber International Ltd., hafa stofnað fjárfestingafélagið ICONSJÓÐINN ehf. með 375 milljóna kr. hlutafé. Eignarhlutur Amber Int. er 52% en Pharmaco hf. 48%. ICONSJÓÐURINN hefur keypt meirihluta hlutafjár í lyfjafyrirtæki í Búlgaríu ásamt Deutsche Bank og Morgan Grenfell & Co.

Samkvæmt tilkynningu er forsvarsmaður eigenda Amber Int. Björgólfur Thor Björgólfsson. Stjórn ICONSJÓÐSINS ehf. skipa Sindri Sindrason formaður, Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Kristinn R. Gunnarsson. Framkvæmdastjóri er Björgólfur Guðmundsson. Fram kemur í tilkynningunni að hinn 1. júní hafi ICONSJÓÐURINN ehf., Morgan Grenfell & Co. og Deutsche Bank gengið frá kaupum á meirihluta hlutafjár í lyfjafyrirtækinu Balkanpharma í Búlgaríu. Hlutur ICONSJÓÐSINS ehf. er um 700 milljónir króna en hlutir þessara tveggja fjárfestingahópa eru svipaðir. ICONSJÓÐURINN ehf. sé þó leiðandi fjárfestir í félaginu með meirihluta í stjórn en Björgólfur Thor Björgólfsson er stjórnarformaður í Balkanpharma. Búnaðarbanki Íslands aðstoðaði ICONSJÓÐINN ehf. við fjármögnun verkefnisins. Balkanpharma er lyfjadreifingarfyrirtæki sem keypt hefur þrjár af stærstu lyfjaverksmiðjum í Búlgaríu sem verið er að einkavæða. Fyrirtækið framleiðir hráefni til lyfjagerðar, flestar tegundir lyfja og ýmsar skyldar vörur. Helmingur framleiðslunnar er seldur á erlenda markaði og hefur útflutningurinn náð til 32 landa, meðal annars til Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna, en Búlgaría hefur um langt skeið verið eitt af helstu lyfjaframleiðslulöndum Austur-Evrópu. Fyrirtækið rekur dótturfyrirtæki, meðal annars í Rússlandi og Úkraínu. Hjá fyrirtækinu starfa um 6.000 manns og hefur verið hagnaður af rekstrinum undanfarin ár. Velta í ár er áætluð yfir 8.000 milljónir króna og reiknað er með 30% aukningu á næsta ári.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK