Tvöfalt fleiri skip seld úr landi árið 2002 en árið á undan

Netabáturinn Hraunsvík GK er einn þeirra báta sem seldir hafa …
Netabáturinn Hraunsvík GK er einn þeirra báta sem seldir hafa verið úr landi á síðustu dögum. mbl.is/Hafþór

Á síðasta ári voru 40 skip og bátar úr íslenska flotanum seld til útlanda, þar af 26 þilfarsskip og 14 opnir bátar. Þetta er rúmlega tvöfalt fleiri skip en seld voru úr landi árið á undan, en þá voru 19 skip seld erlendum aðilum. Árið 2000 voru 20 skip seld úr landi og 19 skip árið 1999. Flest skipin á síðasta ári voru seld til Færeyja og Noregs.

Sífellt berast fréttir af sölu báta til útlanda og það sem af er ári hafa að minnsta kosti þrjú skip verið seld úr landi, netabáturinn Hraunsvík GK til Suður-Afríku, togarinn Ýmir HF til Rússlands og Suðurey VE til Noregs.

Skipasalan Álasund ehf. í Reykjanesbæ hefur verið umsvifamikil í sölu á íslenskum skipum að undanförnu. Þórarinn S. Guðbergsson, skipamiðlari hjá Álasundi, segir þrjár ástæður helstar fyrir þessari miklu söluaukningu á skipum til útlanda og að það sé afleiðing af kvótakerfinu.

Í fyrsta lagi er það sameining útgerðarfyrirtækja sem hefur þessi áhrif að skipum fækkar. Fyrirtækin hafa í auknu mæli hagrætt í rekstri þannig að kvótinn færist á færri skip. Við hverja sameiningu verði 1-4 skip verkefnalaus.

Í öðru lagi hafa skipin stækkað, eru afkastameiri en áður var og þá þarf að selja minni skip í staðinn. Sem dæmi um það var stærsta skipið í uppsjávarfiski árið 1997 um 1.500 tonn og fá skip voru yfir 1.000 tonn. Nú eru mjög fá skip eftir undir 1.000 tonnum og þau stærstu komin vel yfir 2.000 tonn.

Í þriðja lagi eru það rækjuveiðarnar, sem hafa dregist mjög mikið saman á undanförnum árum. Verð á rækju hefur verið mjög lágt og því tiltölulega fá útgerðarfyrirtæki sem telja rækjuveiðar arðbærar.

Þórarinn segir að verð á skipum hafi lækkað mikið, enda framboð á kvótalausum skipum meira en áður. Útgerðarfyrirtæki vilja ekki liggja með skip sem hafa ekki kvóta, enda dýrt að liggja með þau bundin við bryggju.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK