Helgi Magnússon kaupir 8,8% í Íslandsbanka

Helgi Magnússon, bankaráðsmaður í Íslandsbanka hf. og framkvæmdastjóri Hörpu Sjafnar hf., hefur keypt 8,8% hlutafjár í Íslandsbanka fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags í hans eigu. Hlutabréfin voru keypt af Landsbanka Íslands hf. og Landsbanka Luxembourg S.A. Helgi á nú 8,86% hlutafjár í Íslandsbanka.

Um er að ræða kaup á rúmlega 926,7 milljónum hluta í Íslandsbanka á genginu 8,456. Kaupverðið nemur því ríflega 7,8 milljörðum króna. Fyrir átti Helgi, sem einnig er stjórnarmaður í Lífeyrissjóðnum Framsýn og Straumi Fjárfestingabanka, 6,3 milljónir hluta og á nú samanlagt 933 milljónir hluta.

Helgi sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann gerði sér vonir um að þessi kaup ykju á stöðugleika í kringum bankann og sköpuðu góðan frið um rekstur hans. "Ég hef setið í bankaráði Íslandsbanka sl. sjö ár og hef mikla trú á fyrirtækinu og framtíð þess. Ég veit að innviðir bankans eru traustir og þar starfar frábært starfsfólk með víðtæka reynslu. Því lít ég á þetta sem spennandi og góðan fjárfestingarkost."

Hann segist lítið getað tjáð sig um fjárfestinguna að öðru leyti og ekki liggi fyrir á þessari stundu hverjir muni koma að fjárfestingunni með honum. "Stefnan er að það verði öflugir aðilar," segir Helgi.

Keypt á yfirverði

Kaupverðið á hvern hlut var sem fyrr segir 8,456 krónur og er það nokkru hærra verð en á markaði. Lokaverð á viðskiptum með hlutabréf Íslandsbanka í Kauphöll Íslands var 7,65 krónur á hlut á þriðjudag þegar kaupin fóru fram. Helgi segir slíkt yfirverð algengt þegar um kaup á stórum og mikilvægum eignarhlutum í almenningshlutafélögum er að ræða. "Þetta er um 10% yfirverð miðað við það gengi sem hefur verið í viðskiptum í Kauphöllinni undanfarna daga."

Í Hálffimm fréttum KB banka í gær segir að kaupgengið hljóti að teljast nokkuð hátt. Viðskiptin fari fram á 11,23% hærra gengi en það gengi sem var á markaðinum. "Ljóst er því að Helgi Magnússon sér mun meira virði í bankanum en aðrir aðilar á markaði og langtum meira en Greiningardeild, því má leiða líkur að því að Helgi ætli sér breytingar á stefnumörkun bankans [...] Ljóst er að vegna dreifðs eignarhalds Íslandsbanka er hér um hlut að ræða sem gæti talist ráðandi og skýrir það ef til vill það háa verð sem Helgi greiddi," segir í Hálf fimm fréttum en þar er jafnframt gerð athugasemd við að KB banka hafi þótt upplýsingagjöf í tengslum við kaupin einkennileg og tilefni fyrir Kauphöllina að skoða að setja bréf Íslandsbanka á athugunarlista.

Seljendur hlutarins eru Landsbanki Íslands hf. og Landsbanki Luxembourg S.A. Sá fyrrnefndi réð yfir alls 7,78% hlutafjár í Íslandsbanka. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar átti Landsbankinn sjálfur fyrir viðskiptin 4,43% í Íslandsbanka og hafði að auki gert framvirkan samning um sölu á 3,35%.

Gerðir voru tveir framvirkir samningar um söluna og miðast lokauppgjör þeirra við 1. júní nk. Annar samningurinn hljóðaði upp á 450,5 milljónir hluta og hinn upp á 476,2 milljónir hluta. Atkvæðaréttur flyst yfir til kaupanda frá gerð samnings, sem og réttur til arðs.

Landsbankinn á nú engan hlut í Íslandsbanka en verður væntanlega áfram skráður eigandi hlutar á meðan framvirkur samningur er í gildi.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir gott tilboð vera ástæðu þess að Landsbankinn selur hlutabréf sín í Íslandsbanka. Hann segist ánægður með það verð sem bankinn fékk fyrir bréfin en stutt er síðan bréfin voru keypt á 7,8 krónur á hlut. Af því má ætla að ágóði bankans af sölunni á 4,4% hlut sínum losi 300 milljónir króna.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir