Gengi pundsins og breskra hlutabréfa lækkaði

Bráðaliðar koma á neðanjarðarlestarstöðina við Edgware Road.
Bráðaliðar koma á neðanjarðarlestarstöðina við Edgware Road. AP

Gengi hlutabréfa lækkaði í kauphöllinni í Lundúnum og gengi breska pundsins sömuleiðis eftir að fréttir bárust af sprengingum sem urðu í morgun í neðanjarðarlestarstöðvum og strætisvögnum í borginni.

FTSE 100 hlutabréfavísitalan lækkaði um 2,49% í kjölfar sprenginganna. Þá lækkaði gengi pundsins og fór niður í 1,7404 dali en gengi evrunnar hækkaði og var 0,6892 pund.

Fjármálasérfræðingar segja, að fréttir af sprengingunum hafi valdið óvissu á fjármálamarkaði í Lundúnum.

Charles Clarke, innanríkisráðherra sagði í morgun að sprengingarnar hefðu valdið hræðilegum áverkum en vildi ekki upplýsa hve margir hefðu látið lífið eða slasast.

Ferðum lesta og strætisvagna var hætt í Lundúnum eftir sprengingarnar. Lögregla segir að sex sprengjur að minnsta kosti hafi sprungið í morgun. Ekki er ljóst hver stóð að sprengjutilræðunum en Jeremy Batstone, sérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu Charles Stanley, sagði að margt benti til þess að um hafi verið að ræða hryðjuverkaárás. Það myndi augljóslega hafa neikvæð áhrif á FTSE hlutabréfavísitöluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK