Þrír fjárfestahópar kaupa meirihlutann í Icelandair Group

Jón Karl Ólafsson er forstjóri Icelandair Group
Jón Karl Ólafsson er forstjóri Icelandair Group

FL Group hefur gengið frá sölu á öllu hlutafé sínu í Icelandair Group. Áætlaður söluhagnaður er um 26 milljarðar króna miðað við bókfært virði Icelandair Group í lok júní 2006. Þrír hópar fjárfesta hafa keypt meirihluta hlutafjár í félaginu eða 50,5% hlut. Langflug ehf. (að mestu í eigu Samvinnutrygginga hf.) keypti 32% hlut. Naust ehf. (að mestu í eigu BNT hf., móðurfélags Olíufélagsins og Bílanaust) með 11,1% hlut og Blue-Sky Transport Holding (að mestu í eigu Ómars Benediktssonar) með 7,4% hlut. Í tilkynningu kemur fram að handbært fé FL Group eykst um 35 milljarða króna.

Glitnir sölutryggir óselt hlutafé í eigu FL Group. Þar af hefur Glitnir þegar ráðstafað, til fjárfesta, starfsfólks og stjórnenda Icelandair Group, allt að 16% hlut. Lykilstjórnendur Icelandair Group áforma að kaupa allt að 4% í félaginu. Allir starfsmenn Icelandair Group fá tækifæri til að kaupa hlut í félaginu og hafa um 4% hlutafjár verið tekin frá í þessum tilgangi. Allt að þriðjungi hlutafjár í Icelandair Group verður boðið til kaups í almennu hlutafjárútboði í umsjón Glitnis.

Glitnir hefur til viðbótar ráðstafað til fjárfesta og starfsfólks Icelandair Group allt að 16% hlut, þannig að alls hefur um 67% hlutafjár félagsins verið ráðstafað.

Í tengslum við fyrirhugaða skráningu Icelandair Group á hlutafjármarkað mun fara fram almennt hlutafjárútboð, þar sem fagfjárfestum annarsvegar og almenningi hinsvegar gefst kostur á að skrá sig fyrir hlut í Icelandair Group. Stefnt er að sölu á allt að þriðjungi hlutafjár með þessum hætti. Fyrirkomulag útboðsins verður kynnt síðar.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group segir í fréttatilkynningu: „Hinn mikli áhugi fjárfesta á Icelandair Group gerði FL Group kleift að selja allan hlut sinn í félaginu, enda staða þess sterk og rekstur góður. Þessi viðskipti marka viss tímamót fyrir FL Group og styðja vel við áætlanir félagsins um frekari fjárfestingar, ásamt því að auka enn þann sveigjanleika sem þegar býr í því. Við höfum lagt ríka áherslu á að Icelandair Group komist í almenningseigu, enda um að ræða mikilvægasta samgöngufyrirtæki landsins. Þá er mikilvægt að félagið verði áfram leiðandi fyrirtæki í alþjóða flugrekstri og það haldi því forystuhlutverki sem það hefur í innlendri ferðaþjónustu.”

Jón Diðrik Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Glitni: „Við lýstum því yfir þegar við gengum frá samkomulagi við FL Group um skráningu Icelandair Group, að við teldum áhuga fjárfesta á félaginu mikinn og það hefur komið á daginn. Við höfum þegar gengið frá sölu á þeim hlut sem Glitnir sölutryggði fyrir tæpum tveimur vikum. Því til viðbótar hefur Glitnir ráðstafað um 16% til annarra fjárfesta og starfsfólks Icelandair Group þannig að nú hefur 67% hlutafjár í félaginu verið ráðstafað. Þetta er í takt við þær væntingar sem við höfðum til þessa verkefnis.”

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group: „Stjórnendur Icelandair Group styðja áætlanir um skráningu á markað heilshugar og fagna því tækifæri sem það veitir. Áform eru uppi um að stjórnendur komi að kaupum á allt að 4% hlut sem sýnir okkar hug og tiltrú á félaginu. Markmið með skráningu er að fá að félaginu breiðan hóp fagfjárfesta og einstaklinga og efla þannig tengsl þessa mikilvæga fyrirtækis við almenning í landinu. Ég er afar ánægður með að í samkomulagi FL Group og Glitnis felist, að allir starfsmenn Icelandair Group muni fá tækifæri til að kaupa hlut í félaginu,” að því er fram kemur í tilkynningu.

Icelandair Group er eignarhaldsfélag utan um 12 sjálfstæð rekstrarfélög í flugrekstri og ferðaþjónustu. Starfsmenn félagsins eru 2.700 og velta félagsins á þessu ári er áætluð 54 milljarðar íslenskra króna. Rekstri félagsins er skipt í 3 meginsvið; Áætlunarflug millilanda, leigu- og fraktflug á erlendum mörkuðum og ferðaþjónustu á Íslandi. Meginundirstaða rekstrarins er millilandaflug Icelandair sem byggir á tengiflugi milli Evrópu og Ameríku með megináherslu á Ísland. Félagið flýgur til 22 áfangastaða beggja vegna hafsins og flutti á seinasta ári um eina og hálfa milljón farþega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK