Icelandair boðar niðurskurð

Icelandair kynnir í dag aðgerðir til þess að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi vegna hækkandi eldsneytisverðs og óvissu í efnahagsmálum. Aðgerðirnar fela í sér samdrátt í vetraráætlun fyrirtækisins, fækkun starfsfólks, skipulagsbreytingar, fækkun í stjórnendahópi og eldsneytissparandi aðgerðir í flugi.

Starfsfólki fækkar í heild um 240

Við þessar breytingar er ljóst að starfsmannaþörf félagsins minnkar og því er gert ráð fyrir að stöðugildi hjá Icelandair muni fækka um 190, úr um 1.230 á síðasta vetri í 1.040 í vetur, að því er segir í tilkynningu frá Icelandair.

Vegna þess að sumir eru í hlutastörfum mun starfsfólki í heild fækka um 240 einstaklinga. Þar af fá rúmlega 200 uppsagnarbréf fyrir lok júnímánaðar, 64 flugmenn og 138 flugfreyjur, en einnig fækkar starfsmönnum á tæknisviði, flugumsjónarmönnum og starfsmönnum á söluskrifstofum félagsins, að hluta með uppsögnum og að hluta með því að ekki er ráðið í störf sem losna.

Í heild mun fækka í starfsmannahópi Icelandair um 240 einstaklinga í haust, umfram þá breytingu sem jafnan fylgir því að mun meiri umsvif eru í flugi á sumrin en veturna. Við uppsagnirnar er farið að lögum um hópuppsagnir og haft samráð við viðkomandi stéttarfélög. Boðið er upp á ráðgjöf og aðstoð fyrir þá sem missa atvinnuna, samkvæmt tilkynningu Icelandair.

Samdráttur um 14% frá því í fyrravetur

Icelandair tilkynnti í lok maí s.l. um breytingar á áætlun næsta vetrar sem fela meðal annars í sér að vetrarhlé verður lengt í flugi til og frá Minneapolis og heilsársflugi til Toronto og Berlín er frestað. Flug til og frá Toronto í Kanada hófst í vor og mun halda áfram vorið 2009 eftir vetrarhlé. Hlé var gert á flugi til Minneapolis á síðasta vetri og nú verður það hlé lengt veturinn 2008-2009 og stendur frá októberlokum fram í mars.

Á síðasta vetri var ekki flogið til Berlínar og áformum um heilsársflug þangað hefur verið frestað. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á vetraráætlun félagsins, meðal annars verður dregið úr flugi til Parísar en flug aukið til New York. Einnig verða felld út einstök flug á nokkrum leiðum. Þessar breytingar nema um 14% samdrætti milli vetraráætlana.

Skipulagsbreytingar og fækkun stjórnenda

Samhliða þessum samdrætti í flugáætlun og starfsmannafjölda Icelandair hafa verið gerðar skipulagsbreytingar sem miða að því að einfalda ferla og draga úr kostnaði. Lagðar hafa verið niður deildir og þær sameinaðar öðrum í höfuðstöðvum hér á landi og á skrifstofum félagsins erlendis. Þá hefur millistjórnendum verið fækkað og sem dæmi má nefna að forstöðumönnum innan Icelandair hefur verið fækkað úr fimmtán í sjö. Þetta hefur verið gert með því að ráða ekki í störf sem losna og með uppsögnum. Samhliða er einnig gert átak til þess að draga úr öðrum rekstrarkostnaði.

Sparnaðaraðgerðir í flugi

Þá hefur verið hrint í framkvæmd margháttuðum aðgerðum til að ná fram eldsneytissparnaði í flugi félagsins, til þess að draga úr áhrifum hækkandi eldneytisverði. Átak er gert til þess að létta flugvélarnar eins og unnt er með nákvæmari hleðslu, og sparnaði er náð fram með því að draga úr hraða og breyta vinnuaðferðum við aðflug.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir í tilkynningu, að ótryggt efnahagsástand í heiminum og gríðarlegar hækkanir á flugvélaeldsneyti að undanförnu breyti rekstrarforsendum Icelandair.

„Þessar erfiðu ytri aðstæður hafa áhrif á starfsemi Icelandair og því grípum við strax til aðgerða til að styrkja fyrirtækið og treysta afkomu þess. Við gerum ráð fyrir að eftirspurn muni minnka þegar líður á árið og því munum við fækka ferðum í áætlunarflugi næsta vetur. Samdráttur í flugi leiðir óhjákvæmilega af sér fækkun starfsmanna. Við kappkostum að halda slíkum samdrætti í lágmarki og vinnum ötullega að því að verja tekjuöflun fyrirtækisins til þess að tryggja vöxt þess til framtíðar", segir hann.

„Það er erfitt að sjá að baki góðum samstarfsmönnum og vinum og frábæru starfsfólki. Icelandair hefur í harðri samkeppni byggt árangur sinn á þekkingu og samheldni starfsfólksins. Fyrir vikið erum við í fremstu röð alþjóðlegra flugfélaga og höfum mjög sterka stöðu hér á Íslandi. Þegar móti blæs í rekstrinum reynir á þetta sem aldrei fyrr. Ég treysti því að þekking og reynsla starfsmanna og sá samtakavilji sem hefur alla tíð verið undirstaða Icelandair verði mesti styrkur þess nú. Ég óska því góða fólki sem fer frá okkur nú alls hins besta", segir Birkir Hólm Guðnason

„Í heild eru þetta aðgerðir sem við erum sannfærð um að styrkja Icelandair til framtíðar", segir Birkir Hólm Guðnason. "Við höfum áður sýnt að með því að bregðast hratt við ytri áföllum þá eflum við starfsemina þegar til lengri tíma er litið. Sveigjanleiki er einn af lykilstyrkleikum fyrirtækisins og við munum halda áfram að þróa og bæta fyrirtækið þannig að það geti áfram boðið upp á góða og verðmæta þjónustu í flugi milli Íslands og annarra landa", segir Birkir Hólm Guðnason enn fremur í tilkynningu.


Ólík staða fyrirtækja innan Icelandair Group

Icelandair er eitt af tólf dótturfyrirtækjum Icelandair Group og eru öll fyrirtækin að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi flug- og ferðaþjónustu hvert með sínum hætti.

„Fyrirtækin innan Icelandair Group eru að bregðast við breytingum í umhverfi sínu á margvíslegan hátt. Önnur flugfélög innan samstæðunnar, svo sem Flugfélag Íslands, Blubird Cargo, Latcharter í Lettlandi og Tavel Service í Tékklandi, eru ólík og sum eru ekki háð þróun eldsneytisverðs með sama hætti og Icelandair. En önnur fyrirtæki innan Icelandair Group, eins og IGS á Keflavíkurflugvelli finna fyrir þessum breytingum og þar fækkar fólki í haust umfram venjulega árstíðabreytingu um 75 stöðugildi.

Öll fyrirtækin í Icelandair Group, sem samtals hafa um 3500 starfsmenn um allan heim, leggja áherslu á kostnaðaraðhald og sveigjanleika við núverandi aðstæður“, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í tilkynningu.

Icelandair boðar verulegar uppsagnir
Icelandair boðar verulegar uppsagnir mbl.is/Skapti
Icelandair
Icelandair mbl.is/Halldór
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK