Ár efnahagshamfara

Ársins 2008 verður vafalaust minnst í sögubókum framtíðarinnar sem árs alþjóðlegra efnahagshamfara. Þrátt fyrir að alþjóðlega fjármálakreppan hafi tekið fyrstu skrefin árið 2007 komst hún fyrst á flug árið 2008 og eflaust munu enn líða nokkur misseri áður en við verðum endanlega laus við kreppuna og áhrif hennar. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Helstu hagspekingar og sérfræðingar heims telja að lægðin verði ekki liðin hjá fyrr en í fyrsta lagi árið 2010 og þeir svartsýnustu eru jafnvel farnir að sjá fyrir sér að kreppan muni hrella heimsbyggðina í heilan áratug. Ljóst er að síðustu blaðsíðurnar í kaflanum um fjármálakreppuna eru enn óskrifaðar og þróun mála á næsta ári mun eflaust gefa vísbendingu um hvernig niðurlagið verður. Viðbragðsáætlanir stjórnvalda og björgunaraðgerðir munu eflaust koma til með að spila stórt hlutverk í þeim lokakafla. 

Í upphafi voru undirmálslán

Upphaf fjármálakreppunnar alþjóðlegu er að öllu jöfnu miðað við þann 22. júní 2007 en þá  kom í ljós að bandaríski fjárfestingabankinn Bear Stearns hafði tapað gríðarlega á fjárfestingum í skuldabréfavafningum tengdum áhættusömum fasteignalánum.

Í framhaldinu fjölgaði sífellt þeim bandarísku fjármálastofnunum sem tilkynntu um vandræði sín í kjölfar vafasamra fjárfestinga af þessu tagi. Strax í ársbyrjun  2008 var orðið ljóst að kreppan hafði undið upp á sig og breyst frá því að vera bandarísk undirmálslánakrísa í að verða alþjóðleg fjármálakreppa.

Í febrúar 2008 var breski bankinn Northern Rock þjóðnýttur af breskum stjórnvöldum, en bankinn hafði sætt bankaáhlaupi haustið áður og átt erfitt uppdráttar eftir það. Fram eftir ári molnaði jafnt og þétt undan eignamörkuðum beggja veggja atlantsála og víðar um heim. Kreppunni óx svo ásmegin haustið 2008 og þann 14.september féll bandaríski bankarisinn Lehman Brothers sem flestum hafði þótt óhugsandi, jafnvel nokkrum dögum fyrir hrunið. Fall Lehman er stærsta gjaldþrot sem orðið hefur í Bandaríkjunum nokkurn tímann. Í kjölfarið féll fjöldinn allur bönkum og fjárfestingafélögum víða um heim og stjórnvöld gerðu sér í kjölfarið grein fyrir hversu alvarlegt ástandið var.

Ísland komst inn í hringiðu þessarar atburðarásar í byrjun október þegar allir stóru íslensku bankarnir voru teknir yfir af íslenskum yfirvöldum og krónan féll eins og steinn samhliða því sem markaður með hlutabréf nánast strokaðist út. Fjármálakreppan hefur síðan á haustdögum farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Tugir banka og fjármálafyrirtækja hafa farið á hliðina og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að þær upphæðir sem tapast hafa vegna kreppunnar verði 1 trilljón bandaríkjadala áður en yfir lýkur.

Svo tók efnahagssamdráttur við

Fjöldi ríkja hefur leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna vandræða í kjölfar kreppunnar, en auk Íslands hafa Úkraína,  Serbía, Ungverjaland og Pakistan m.a. leitað á náðir sjóðsins.

Kreppan hefur þróast frá því að vera fjármálakreppa í að vera efnahagskreppa en fjöldi hagkerfa standa nú frammi fyrir efnahagslegum samdrætti og auknu atvinnuleysi. Alþjóðlega vinnumálastofnunin (ILO) hefur spáð því að minnsta kosti 20 milljónir starfa  muni tapast áður en árið 2009 rennur sitt skeið vegna lausafjárkreppunnar, sem myndi gera það að verkum að fjöldi atvinnulausra jarðarbúa fari yfir 200 milljónir í fyrsta skipti, samkvæmt Morgunkorni Greiningar Glitnis.

Þeim löndum fjölgar stöðugt sem teljast vera í samdrætti en skilgreining á efnahagssamdrætti er sú að landsframleiðsla dragist saman tvo ársfjórðunga í röð. Samdráttur var í Eistlandi, Lettlandi, Írlandi og Nýja Sjálandi á fyrri hluta þessa árs og í Japan, Hong Kong,  Singapore, Þýskalandi og Ítalíu síðar á árinu. Samdráttur er einnig á evrusvæðinu í heild. Þá hefur bandaríska hagfræðistofnunin (NBER) nú lýst því yfir að efnahagssamdráttur í Bandaríkjunum hafi byrjað fyrir ári síðan en stofnunin beitir víðtækari aðferðum til að skilgreina samdrátt en hin hefðbundna skilgreining mælir til um. Samdrátturinn hefur varað í 12 mánuði í Bandaríkjunum og er þegar orðinn þriðja lengsta samdráttarskeið sem það hagkerfi hefur farið í gegnum síðan í kreppunni miklu 1929.  

Vaktinni er langt frá því lokið

„Stjórnvöld víða um heim standa nú vaktina og reyna að bægja burt kreppunni með öllum tiltækum ráðum. Búist er við að eitt fyrsta verkefni Barack Obama sem forseta verði að samþykkja nýjan aðgerðapakka sem ætlað er að hleypa lífi í atvinnulífið í Bandaríkjunum en eins og kunnugt er var eitt síðasta verk forvera hans í starfi að hleypa af stokkunum 700 ma. dala aðgerðapakka til endurreisnar hagkerfinu. Þá er verið að vinna að samkomulagi um sameiginlega aðgerðaáætlun Evrópusambandsins. Seðlabanki Japan hefur ákveðið að veita 32 mö. bandaríkjadala í aðgerðir til að auka aðgang fyrirtækja að lausafé.

Þetta eru þó aðeins örfá dæmi um þær víðtæku aðgerðir sem stjórnvöld um allan heim hafa gripið til. Ljóst er að ennþá eru mörg óveðurský á lofti og vaktinni er langt frá því að vera lokið.

Þá hafa Seðlabankar um allan heim keppst við að lækka vexti og veita peningum inn í hagkerfið til að smyrja hjól atvinnulífsins og sporna við frekari samdrætti. Í Japan og Bandaríkjunum eru vextir nú rétt við núllið og á evrusvæðinu eru vextir nú 2,5%. Þrátt fyrir að verðbólga hafi verið í sögulegu hámarki fyrri hluta árs minnkaði verðbólguþrýstingur verulega eftir því sem leið á ári. Hrávörubólan sem staðið hefur undanfarin misseri sprakk með látum í sumar en síðan þá hefur olíuverð lækkað um 75% og flestallar aðrar hrávörur hafa fylgt í kjölfarið sem hefur orðið til þess að verulega hefur dregið úr verðbólguþrýstingi á heimsvísu. Lækkandi hrávöruverð ásamt versnandi hagvaxtarhorfum gerir það að verkum að seðlabankar geta lækkað vexti án þess að hafa teljandi áhyggjur af verðbólguþrýstingi," samkvæmt Morgunkorni Glitnis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK