Jón Ásgeir selur snekkju og flugvél

Einkaþota Jón Ásgeirs Jóhanessonar hefur verið seld, segir Sunday Times.
Einkaþota Jón Ásgeirs Jóhanessonar hefur verið seld, segir Sunday Times. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur selt einkaþotu sína og 50 metra langa Hessen snekkju, að því er kemur fram í viðtali, sem Sunday Times birtir á morgun. Þá hefur hann sett íbúð sína í New York á sölu. Jón Ásgeir segist enn eiga Rolls-Royce Phantom á Íslandi en aðeins vegna þess að það er ekki auðvelt að selja notaða lúxusbíla um þessar mundir.

„Það er gaman að eiga þessa hluti en það er hægt að vera án þeirra," hefur blaðið eftir Jóni Ásgeiri. Fullyrt er í greininni, að persónulegar eignir Jóns Ásgeirs hafi nánast þurrkast út en þær voru metnar á 600 milljónir punda, jafnvirði 95 milljarða, fyrir tveimur árum.

„Ég hef ekki náð mér enn af þessu áfalli," segir Jón Ásgeir um gjaldþrot Baugs. „Þetta gerðist svo hratt að ég hef ekki gert mér grein fyrir því. En þetta hefur allt farið á versta veg. Ég byggði þetta upp á 11 árum. En svona er lífið."

Hann segist þó ekki hafa gefist upp og ætli að byggja upp fyrirtæki á ný.  „Við höfðum allt of mikið á okkar könnu. Ekki aðeins í smásölu heldur í ýmsu öðru, sem við þurftum að eyða tíma í. Við munum gera þetta öðruvísi næst. Það verður minna og með skýrara markmiði."

Blaðið Sunday Telegraph birtir einnig ýtarlega umfjöllun um Baug og ræðir við Gunnar Sigurðsson, forstjóra félagsins. Þar tekur Gunnar undir með Jóni Ásgeiri að forsvarmenn Baugs hafi sennilega verið með of mörg járn í eldinum. Á endanum hafi hins vegar fellibylurinn, sem fór yfir fjármálakerfi heimsins, orðið fyrirtækinu að falli. 

Grein Sunday Times

Grein Sunday Telegraph

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir