Mikið laust fé í fjármálakerfinu

Mikið lausafé er nú í íslenska fjármálakerfinu. Þetta má meðal annars sjá í nýjum gögnum Seðlabankans um innlán lánastofnana í Seðlabankanum.

„Þegar kreppir að, sérstaklega í kjölfar bankakreppu líkt og riðið hefur yfir Ísland, frestar fólk neyslu og fjárfestingar dragast hratt saman. Fólk og fyrirtæki kjósa fremur að spara en eyða og því aukast innstæður hratt.

Hugsanlega er hér einnig um að ræða viðleitni til að auka á ný peningalegar eignir eftir þann skell sem varð í bankahruninu. Loks hefur áhættufælni aukist og sparnaður leitar í öruggustu sparnaðarformin, innlán og ríkisverðbréf," að því er segir í Hagsjá Landsbankans.

Innistæður innlánsstofnana hafa aukist um 64%

Fáir fjárfestingarkostir valda því að bankarnir leita oftar en ekki í faðm viðkomandi Seðlabanka til þess að ávaxta þetta lausafé. Sú hefur orðið raunin hér á landi, laust fé hefur safnast á viðskiptareikninga banka í Seðlabankanum, samkvæmt Hagsjá Landsbankans.

Á fyrri helmingi þessa árs jukust innstæður innlánsstofnana í Seðlabankanum um 64% frá áramótum til júlíloka. Á sama tíma hefur Seðlabankinn hætt að gefa út svokölluð innstæðubréf en þau voru rafrænt skráð skuldabréf útgefin af Seðlabankanum. Líklegt má telja að hluti þess fjár sem bundinn var í innstæðubréfunum hafi skilað sér sem innstæður á viðskiptareikningum. Einnig er líklegt að eitthvað af því fjármagni sem áður var í innstæðubréfum hafi farið inn á skuldabréfamarkaðinn, samkvæmt Landsbankanum.

„Við þessar aðstæður bíta stýrivextir Seðlabankans ekki sem skyldi, enda höfum við áður sagt frá því að í raun skipti innlánsvextir hans meira máli um þessar mundir, þ.e. þeir vextir sem lánastofnunum bjóðast á viðskiptareikningum sínum hjá Seðlabankanum.
Stýrivextir Seðlabankans eru nú 12% en innlánsvextir 250 punktum lægri, 9,5%. Til samanburðar er ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa á bilinu 6,1% (RIKB 10 0317) til 8,5% (RIKB 25)."

Sjá nánar á vef Seðlabanka Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir