Deilt um kaupauka bankastjóra

Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna á G20 fundinum í gær
Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna á G20 fundinum í gær Reuters

Ágreiningur hefur komið upp meðal fjármálaráðherra helstu iðnríkja heims um hvernig stemma eigi stigu við ofurlaunum stjórnenda banka. Málið verður rætt á fundi fjármálaráðherra G20-ríkjanna, helstu iðnríkja heims og stórra þróunarlanda, í London í dag.

Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, segir að of háir kaupaukar hafi stuðlað að fjármálakreppunni í heiminum og hefur lofað herferð gegn ofurlaunum bankastjórnenda, m.a. með lögbundnum takmörkunum á kaupauka.

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, leggst gegn þeirri tillögu og segir hana óframkvæmanlega. Hann vill að þess í stað verði settar reglur sem tengi laun stjórnendanna við langtímaárangur þeirra. Að sögn BBC hyggst Darling leggja til að kaupaukarnir verði greiddir á fimm árum og megnið á síðustu tveimur árum tímabilsins.

Talið er að Tim Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sé einnig andvígur tillögu Lagarde.

Markmiðið með fundi fjármálaráðherranna er að undirbúa leiðtogafund G20-ríkjanna í Pittsburgh í Bandaríkjunum 24.-25. þessa mánaðar.

Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands.
Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir