Hagar greiða 270 milljóna sekt

Samkeppniseftirlitið hefur gert sátt við Haga vegna rannsóknar stofnunarinnar á því hvort Bónus, sem er í eigu Haga, og átta kjötvinnslufyrirtæki hafi brotið gegn samkeppnislögum. Viðurkenna Hagar að brot hafi verið framin og fallast á að greiða 270 milljónir króna í stjórnvaldssekt. 

Brotin voru framin með tvíhliða samningum Haga og kjötvinnslufyrirtækjanna eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar hafa verðmerkt fyrir Haga, svonefndar forverðmerkingar.

Samkeppniseftirlitið segir, að eftir umfangsmikla athugun á m.a. tölvupóstssamskiptum kjötvinnslufyrirtækjanna og Haga hafi stofnunin kynnt fyrirtækjunum þá frumniðurstöðu að Hagar og einstakar kjötvinnslur hefðu brotið samkeppnislög í tengslum við smásöluverðlagningu á kjötvörum í verslunum Bónuss. Var kjötvinnslunum og Högum gefinn kostur á að tjá sig um þessa frumniðurstöðu.

Í kjölfarið sneru Hagar sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við Haga.

Sáttin felur í sér eftirfarandi: Hagar viðurkenna að hafa brotið 10. gr. samkeppnislaga með samningum eða samstilltum aðgerðum við umræddar kjötvinnslur í tengslum við verðlagningu á kjötvörum í smásölu. Hagar fallast á að greiða 270 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brotanna. Hagar samþykkja að grípa til ráðstafana sem ætlað er að efla samkeppni í sölu á kjötvörum neytendum til hagsbóta.

Í þessu felst m.a. að Hagar skuldbinda sig til þess hætta öllum samskiptum við kjötvinnslufyrirtæki um smásöluverð í verslunum Haga og hætta í áföngum að taka við vörum frá þeim sem merktar eru með leiðbeinandi smásöluverði. Þá er lagt bann við því að verslanir Haga gefi upp afslátt á kjötvörum nema um raunverulega lækkun frá gildandi smásöluverði sé að ræða.

Samkeppniseftirlitið segir, að Hagar hafi í samskiptum við Samkeppniseftirlitið lagt á það áherslu að félagið hafi ekki haft ásetning til þess að raska samkeppni og að við mat á eðli málsins verði að horfa til þess að löng hefð sé fyrir forverðmerkingum hjá öllum fyrirtækjum á matvörumarkaði.

Samkeppniseftirlitið segir, að þessi sátt auðveldi rannsókn stofnunarinnar og hafi mun fyrr en ella í för með sér breytingu á markaðnum og jákvæð áhrif fyrir samkeppni og neytendur.

Með sáttinni er málinu lokið gagnvart Högum. Þáttur kjötvinnslufyrirtækjanna átta, sem eru Kjarnafæði hf., Síld og fiskur ehf., Sláturfélag Suðurlands svf., Norðlenska ehf., Kaupfélag Skagfirðinga svf., Kjötbankinn ehf., Reykjagarður hf. og Matfugl ehf., er enn til rannsóknar.

„Sáttin við Haga er liður í almennri viðleitni Samkeppniseftirlitsins að tryggja að samstarf m.a. kjötvinnslufyrirtækja og matvöruverslana raski ekki samkeppni. Í aðgerðunum felst að aðkoma birgja að merkingum á smásöluverði Haga leggst af á þeim sviðum sem mál þetta tekur til auk þess sem breytingar verða á viðskiptaháttum á matvörumarkaði. Má búast við að eftirlitið beiti sér frekar á þessu sviði og gagnvart fyrirtækjum sem ekki eru hluti af framangreindu stjórnsýslumáli," segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins. 

Vinnufyrirkomulag sem gilt hefur í áratugi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK