Verðbólgan hér ekki ásættanleg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, og Vilmundur Jósefsson, formaður SA.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, og Vilmundur Jósefsson, formaður SA. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir verðbólguna á Íslandi ekki ásættanlega. Allt bendi til þess að verðbólgan í ár verði 5% eða meiri en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands eru 2,5%, segir Vilhjálmur.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% og vísitalan án húsnæðis um 6,3%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,9% sem jafngildir 12,0% verðbólgu á ári. Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í apríl hækkaði um 0,78% frá mars.

Of mikil hækkun í hverjum mánuði

Þetta er of mikil hækkun vísitölu neysluverðs í hverjum mánuði, segir Vilhjálmur. „Það eru of miklar hækkanir í gangi,“ segir hann. Þrátt fyrir að hægt sé að finna skynsamlega skýringu á hækkun einstakra liða í hverjum mánuði en hækkun um 0,78% á milli mánaða er einfaldlega of mikið, að sögn Vilhjálms sem segir þetta áhyggjuefni.

Eðlileg hækkun vísitölunnar á mánuði er 0,2-0,3%, segir Vilhjálmur og þá væri Ísland að nálgast einhvern stöðugleika.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur í mars og segir í yfirlýsingu nefndarinnar að litið lengra fram á veginn er hætta á að verðbólga verði lengur fyrir ofan verðbólgumarkmið en spáð var, styrkist krónan ekki á komandi mánuðum.

„Á endanum er það þannig að vextir hljóta á einhvern hátt elta verðbólguna þó svo vextir séu ekki hækkaðir til að kveða niður verðbólguna. Ef verðbólgan er hins vegar að festast í yfir 5% á árinu þá verður að stilla stýrivextina í samræmi við það,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að það séu fyrst og fremst gengisbreytingarnar sem eru að hafa þessi áhrif á aukna verðbólgu og veiking krónunnar sé afleiðing af gjaldeyrishöftunum. „Menn verða að brjótast út úr þessu.  Mér sýnist að aðaldrifkraftur verðbólgunnar vera gengisbreytingar sem eru til komnar vegna gjaldeyrishaftanna,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir