Geta valið úr spennandi verkefnum

Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri TM Software
Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri TM Software Ásdís Ásgeirsdóttir

Hérlendis eru fjölmörg fyrirtæki í hugbúnarforritunar- og upplýsingatæknigeiranum og hefur hann farið stækkandi með árunum. Nóg virðist vera um störf og virðist helsta vandamálið vera vöntun á starfsfólki. Í viðtali við mbl.is talar Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri TM Software, um þróunina frá hruni, launaskrið í geiranum meðan aðrir hafa dregið seglin saman og nauðsyn þess að kynna greinina fyrir ungu fólki.

Töluverðar breytingar hafa verið í þessum geira frá hruni og segir Ágúst að hjá TM Software hafi t.d. orðið mikil breyting þegar komi að uppbyggingu verkefna. Fyrir 3-4 árum hafi um 90% af verkefnum fyrirtækisins verið í svokölluðum ráðgjafatímum, þ.e. þegar sérfræðingar fyrirtækisins voru til ráðgjafar eða aðstoðar með kerfi þriðja aðila sem ekki hafi verið þróað innanhúss. Í dag hafi þetta snúist mikið við og um 50% verkefna sé vinna að eigin kerfum sem fyrirtækið selur svo út. Forritun og þróun eigin kerfa sé því orðin mun veigameiri og mikilvægari hluti hjá fyrirtækinu.

Ástandið ekki gott

Aðspurður um framboð á starfsmönnum hérlendis segir Ágúst ástandið á starfsmannamarkaði í þessum geira hreinlega ekki vera nógu gott. Enn vanti starfsfólk og þannig hafi það verið síðan fyrir hrun. Segir hann að það hafi orðið fjölgun á störfum en fjöldi starfsmanna hafi ekki haldið í við aukninguna, það séu því góðir möguleikar fyrir nemendur sem séu að koma út á markaðinn að fá vinnu við hæfi. Árgangar síðustu ára hafi hreinlega ekki verið nógu fjölmennir, en á komandi árum séu þó nokkrir stórir á leiðinni, en fram að því verði enn hart barist um góða starfsmenn og reynt að halda í þá sem fyrir eru.

TM Software náði nýlega góðum árangri með Tempo kerfið sitt sem hefur verið að seljast vel og er nú þegar notað í 70 löndum. „Samdrátturinn í kreppunni ýtti okkur í að þróa eigin vöru og selja erlendis,“ segir Ágúst og vill meina að með smá þolinmæði hafi tekist að skapa öfluga og vel launaða starfsgrein hérlendis í hugbúnaðarforritun og er hún enn í mikilli uppsveiflu sem stendur.

Velja sér verkefni

Í því ástandi sem nú er segir Ágúst að fyrirtækið hafi getað stjórnað meira hvað það tæki sér fyrir hendur. „Í dag getum við valið okkur þau verkefni sem við viljum vinna að“ og segir að það þurfi ekki lengur að sækja í allt sem í boði er til að hafa næg verkefni. Þannig hafi verið hægt að velja meira spennandi verkefni og halda þar með í starfsmenn sem hefðu getað farið í aðrar starfsgreinar. Kemur þar t.d. tölvuleikjaiðnaðurinn upp, en oft hefur verið talað um hann sem mjög vinsælan áfangastað meðal hinna tölvumenntuðu í dag. Ágúst segir það frábært að sjá öll tölvuleikjafyrirtækin spretta upp og að það sé „frábær áskorun fyrir okkur að geta gert eitthvað svipað og CCP“ með útflutning á hugbúnaði og góðri umgjörð kringum starfsfólkið. Velgengni fyrirtækja á svipuðum vettvangi hvetji aðra aðila bara meira áfram.

Launaskrið síðustu ár

Mikilvægustu framtíðarverkefni greinarinnar í heild telur Ágúst vera að auka til muna áhuga ungs fólks á hugbúnaðarforritun og upplýsingatækni og er fræðsla til menntaskólanema sem eru á leið í frekara nám þar mikilvægust. Það þurfi einnig að sýna fólki fram á að meðan laun hafi hækkað lítið eða staðið í stað hjá mörgum starfsgreinum síðustu árin hafi mikið launaskrið verið á þessum markaði og því sé það gott fjárhagslega að starfa innan þessa geira. Til að halda uppi þeirri nýsköpun og frumkvæði sem Ágúst segir hafa einkennt starfið síðustu ár sé einnig mikilvægt að halda vinnuhópum tiltölulega litlum og leyfa þeim að vinna sjálfstætt án þess að finna fyrir of mikilli miðstýringu sem hann telur almennt draga úr skapandi anda.

Auka þarf áhuga ungs fólks á hugbúnaðarforritun að mati Ágústs
Auka þarf áhuga ungs fólks á hugbúnaðarforritun að mati Ágústs Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK