Hulda ráðin rekstrarstjóri hjá Kilroy

Hulda Stefánsdóttir, rekstrarstjóri Kilroy
Hulda Stefánsdóttir, rekstrarstjóri Kilroy Kilroy

Hulda Stefánsdóttir viðskiptafræðingur hefur verið ráðin rekstrarstjóri ferðaskrifstofunnar Kilroy á Íslandi, en fyrirtækið sérhæfir sig í ferðalögum fyrir ungt fólk og námsmenn, en ævintýraferðir erlendis eru einnig hluti af vöruframboðinu. Hulda hefur sextán ára reynslu af alþjóðlegu starfi og hefur í sínum fyrri störfum aðstoðað mikinn fjölda fólks við að halda út í heim.

„Að taka þátt í drauminum“

Í samtali við mbl.is sagðist Hulda óvart hafa endað í þessari starfsgrein. Upphaflega hafi hún farið í vistaskipti (e. au-pair) til Bandaríkjanna og við heimkomu hafið störf á au-pair-skrifstofu. „Eitt leiðir af öðru,“ segir Hulda, en með vistaskiptunum hafi ferðabakterían verið fædd og síðan þá hafi hún aðallega unnið í störfum tengdum ferðaþjónustu.

Spurð hvaða aðdráttarafl ferðaþjónustan hafi á hana segir Hulda það „að taka þátt í drauminum“ hjá öðrum alltaf vera spennandi verkefni. Þar fái fólk tækifæri til að taka þátt í skipulagningu á draumaferðum fólks sem það hafi lengi dreymt um. 

Frá 1997 til 2002 var hún verkefnastjóri hjá Vistaskiptum og Námi, en eftir það fór hún til Stúdentaferða og var sölu- og markaðsstjóri til 2005. Hulda var markaðsstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá 2005 til 2009, en þá stofnaði hún Námsferðir sem nú eru orðnar hluti af Kilroy.

Tvisvar á ári í ævintýraferðir

Hulda er útskrifaður viðskiptafræðingur, en hún kláraði viðskiptafræðinám frá Háskólanum í Reykjavík 2003. Hjá Kilroy leggur hún þó áherslu á ferðareynslu starfsmanna og segir að reynslan sé mikilvægust þegar kemur að því að ráðleggja viðskiptavinum. Vegna þessa fari hver starfsmaður Kilroy tvisvar á ári í náms- og kynnisferðir þar sem farið er á þá staði sem Kilroy býður upp á til að kynnast áfangastaðnum og vera betur í stakk búinn til að svara öllu sem viðskiptavinir gætu spurt um.

Ferðaskrifstofan opnaði fyrr í sumar í húsnæði á Skólavörðustíg 3a, en um helgina var haldin opnunarhátíð þar sem heppinn viðskiptavinur vann 400 þúsund króna gjafabréf í ævintýraferð um heiminn. Menntaviðburðurinn Kilroy Live var einnig haldinn þá, en 12 erlendir skólar komu og kynntu starfsemi sína fyrir íslenskum námsmönnum. Eins og fyrr segir eru námsmenn og ungt fólk stærsti markhópur ferðaskrifstofunnar, en Hulda segir þó að boðið sé upp á ævintýraferðir fyrir alla og aldur skipti þar ekki máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK