Raunávöxtun lífeyrissjóða 7%

Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka virðist raunávöxtun lífeyrissjóðanna vera nokkuð góð síðustu …
Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka virðist raunávöxtun lífeyrissjóðanna vera nokkuð góð síðustu 12 mánuði, eða um 7%. Ómar Óskarsson

Eignir lífeyrissjóðanna jukust um 30,1 milljarð í september og er það mesta aukning í einum mánuði síðan í mars. Á þessu ári hafa eignir sjóðanna aukist að meðaltali um 22 milljarða á mánuði og því er aukningin í mánuðinum mun meiri en verið hefur. Hrein eign sjóðanna í lok mánaðarins nam 2.294 milljörðum og hækkunin var því um 1% í mánuðinum. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.

Aukningin er tilkomin vegna mikillar aukningar erlendra eigna sjóðanna en erlendar eignir jukust um 4% í september á meðan innlendar eignir lækkuðu um 0,1% á sama tímabili. Erlendar eignir jukust um 18,8 milljarða í ágúst en innlendar eignir drógust saman um 1,5 milljarða á sama tímabili. Samspil gengisþróunar og góðs gengis erlendra hlutabréfamarkaða í mánuðinum var helsta ástæða aukningar í erlendum sjóðum.

Hrein eign lífeyrissjóðanna nam eins og fyrr segir 2.294 milljörðum í lok september, eða sem nemur 137% af áætlaðri vergri landsframleiðslu þessa árs. Eru sjóðirnir því hlutfallslega mjög stórir í alþjóðlegum samanburði.  Hrein eign sjóðanna hefur aukist um 13,8% undanfarna 12 mánuði.

Að teknu tilliti til verðbólgu er raunaukning eigna sjóðanna  minni, eða 9,1% á sama tímabili. Raunávöxtun eigna þeirra hefur þó verið öllu lakari enda nema iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga mun hærri fjárhæð en greiðslur til lífeyrisþega og úttektir séreignarsparnaðar.

Nettó framlög sjóðfélaga voru þannig tæplega 38 milljarðar árið 2011. Hafi þau áfram verið með svipuðum hætti það sem af er þessu ári má lauslega áætla að raunávöxtun sjóðanna hafi verið í kringum 7% undanfarna 12 mánuði. Ef sú reynist raunin er um að ræða kærkominn viðsnúning eftir litla raunávöxtun undanfarin ár, að því er greiningardeildin segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK