Hætta á að tapið verði enn meira

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður mbl.is/Golli

Staða Íbúðalánasjóðs er veik og hætta er á að ríkissjóður verði fyrir enn frekara tapi vegna sjóðsins. Frá árinu 2008 er tap sjóðsins um 52 milljarðar króna og frá árinu 2010 hefur eiginfjárframlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs numið um 46 milljörðum króna.

Reiknaður vaxtamunur útlána og lántöku nægir ekki til þess að standa undir rekstrarkostnaði, vanskil eru mikil og uppgreiðsluvandinn er áfram til staðar. Staða stærsta lánveitanda húsnæðislána er því veik og ljóst að viðskiptalíkan sjóðsins gengur illa upp í núverandi umhverfi, samkvæmt því sem fram kemur í riti Seðlabanka Íslands, Fjármálastöðugleiki.

Hugsanlegt viðbótartapvegna vanskila og fullnustu 20 milljarðar króna

„Mikil óvissa ríkir enn um stöðu og afkomu sjóðsins á næstu árum. Líklegt er að markaðsvextir verði áfram lágir innan fjármagnshafta sem eykur á uppgreiðsluáhættu. Ef breytingar verða á markaði sem fela í sér t.d. aukna samkeppni og lækkandi útlánsvexti gæti tap vegna uppgreiðslna numið 20-40 ma.kr.

Uppgreiðslur þyrftu þó að aukast verulega frá því sem þær hafa verið að undanförnu til þess að svo mikið tap komi fram. Rekstur sjóðsins er ekki sjálfbær og að öðru óbreyttu mun rekstrarafkoma hans vera neikvæð á næstu árum. Hugsanlegt viðbótartap vegna vanskila og fullnustu gæti numið rúmum 20 ma.kr. Mikilvægt er að Íbúðalánasjóður nái að endurskipuleggja skuldir viðskiptavina sinna sem leiði til minni vanskila og að rekstur sjóðsins miðað við framtíðarhlutverk hans verði arðbær,“samkvæmt riti Seðlabankans.

Í ritinu kemur fram að ýmsir mælikvarðar bendi til að áhætta í fjármálakerfinu hafi minnkað frá síðasta vori. Endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja miðaði áfram og vanskil hjá þremur stærstu viðskiptabönkunum drógust saman úr 23% í 15% á árinu 2012. Skuldsetning fyrirtækja minnkaði um 25% af vergri landsframleiðslu (VLF) en skuldir heimila sem hlutfall af VLF voru nánast óbreyttar.

Ný íbúðalán bankanna 47 milljarðar í fyrra

Ný íbúðalán innlánsstofnana námu um 47 milljörðum króna á árinu 2012, sem er talsverð aukning frá árinu 2011 þegar ný íbúðalán námu 14 milljörðum króna. Undir lok árs 2011 tóku ný íbúðalán innlánsstofnana að aukast og náði vöxturinn hámarki undir mitt ár 2012 þegar fjárhæð nýrra útlána var um 4-5 ma.kr. á mánuði.

Í desember sl. lækkaði hún í um 3 ma.kr. Síðan þá hefur heildarfjárhæð nýrra íbúðalána verið um 3 ma.kr. á mánuði sem er álíka fjárhæð og á fyrstu mánuðum ársins 2012.

79% íbúðalána óverðtryggð lán

„Mikill meirihluti veittra íbúðalána á árinu 2012 voru óverðtryggð lán eða um 79% þó að merkja hafi mátt minni eftirspurn eftir slíkum lánum á síðari hluta ársins, en þrjá síðustu mánuði ársins voru óverðtryggð lán um 63% nýrra íbúðalána en hlutfallið var tæplega 90% á fyrstu þremur mánuðum ársins. Líklega skýrist þessi þróun að mestu leyti af hækkandi vöxtum óverðtryggðra lána þegar leið á árið í takt við vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands.

Viðskiptavinir innlánsstofnana virðast þó enn þeirrar skoðunar, þrátt fyrir vaxtahækkanirnar, að vaxtakjör lánanna séu þeim hagkvæmari. Almenn útlán Íbúðalánasjóðs námu tæplega 13 ma.kr. á árinu 2012 á meðan uppgreiðslur námu 18 ma.kr. á sama tíma. Hér er um nokkra breytingu að ræða frá árinu 2011 þegar ný útlán námu 21 ma.kr. og uppgreiðslur um 10 ma.kr.

Ný íbúðalán hjá lífeyrissjóðunum voru rúmlega 7 ma.kr. á árinu 2012 sem er um 3 ma.kr. lækkun frá árinu á undan. Þegar horft er til innlánsstofnana, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna voru óverðtryggð lán 55% nýrra íbúðalána og verðtryggð því um 45%. Þegar aðeins er horft til síðari hluta ársins 2012 námu óverðtryggð lán 46% nýrra íbúðalána og verðtryggð um 54%. Því er ljóst að eftirspurn eftir verðtryggðum íbúðalánum er enn mikil,“ segir í Fjármálastöðugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK