Háir skattar á ríkt fólk skaðlegir

Dr. Daniel Mitchell er aðalskattasérfræðingur Cato-stofnunarinnar.
Dr. Daniel Mitchell er aðalskattasérfræðingur Cato-stofnunarinnar. mbl.is/Rósa Braga

Til þess að auka skatttekjur ríkisins eiga stjórnmálamenn ekki að leggja háa skatta á ríkt fólk, líkt og margir þeirra vilja, heldur eiga þeir að tryggja það að hagkerfið sé sterkt og hagvöxtur myndarlegur. Háir skattar draga úr vilja fólks til að leggja harðar að sér, fjárfesta og taka þátt í mikilvægum frumkvöðlaverkefnum. Slíkt er engum til góðs.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi dr. Daniels Mitchell, aðalskattasérfræðings Cato-stofnunarinnar í Washington, á sameiginlegum fundi Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Samtaka skattgreiðenda sem haldinn var í Háskóla Íslands í dag.

Mitchell, sem hefur lokið doktorsprófi í hagfræði við George Mason-háskólann í Virginíu, fjallaði um hvernig ríkisútgjöld víða um heim hafa aukist í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar og gerði hann aukinheldur grein fyrir áhrifum Laffer-bogans svonefnda.

„Ríkisútgjöld, í flestum tilvikum, draga úr hagvexti. Flestar rannsóknir sýna að ríkisútgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eigi að vera í kringum 20% en mín persónulega skoðun er sú að hlutfallið ætti að vera enn lægra,“ sagði Mitchell. Bætti hann því að ríkisstjórnir víða um heim, þar á meðal hér á Íslandi, ættu mikið verk fyrir höndum að draga úr ríkisútgjöldum og minnka umsvif ríkisins.

Áhrifa Laffer-bogans gætir víða

Samkvæmt Laffer-boganum svonefnda, sem lengi hefur verið í umræðunni á Íslandi, munu skatttekjur hækka fyrst með hærra skatthlutfalli, þangað til þær ná hámarki, og munu þær þá lækka í kjölfarið niður í nánast ekki neitt við 100% skatthlutfall. Útgangspunkturinn er sá að almenningur þolir skattheimtu aðeins upp að vissu marki. Ef skattheimtan verður of mikil þá dregur hún úr vilja almennings til að afla sér tekna.

Til að útskýra áhrif bogans tók Mitchell afar einfalt dæmi: „Ef veitingastaður selur hamborgara á fimm bandaríkjadali og hækkar verðið í tíu dali, munu þá tekjur hans tvöfaldast? Eða munu viðskiptavinirnir kaupa færri hamborgara? Tekjur veitingastaðarins munu annaðhvort aukast eða minnka - það fer eftir því hversu margir tíu dala hamborgarar verða keyptir - en tekjurnar munu aldrei tvöfaldast,“ sagði hann.

Sagði hann að um breytingar á skatthlutfalli giltu sömu lögmál og um breytingar á hamborgaraverði.

Reagan lækkaði skatta á þá ríku

Því næst tók Mitchell dæmi um skattastefnu Ronalds Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á árunum 1980 til 1988. Efnahagsráðgjafi Reagans á þessum tíma var einmitt Arthur Laffer, sá sem Laffer-boginn er kenndur við. „Reagan lækkaði skatta á þá ríkustu og árangurinn lét ekki á sér standa,“ sagði Mitchell. Árið 1980 hafi 116.800 manns verið í hópi ríkustu einstaklinganna í Bandaríkjunum og skilaði þessi hópur 19 milljörðum Bandaríkjadala til ríkisins í formi skatttekna. Átta árum síðar voru 723.700 manns í hópi þeirra ríkustu og greiddu þeir 99,7 milljarða Bandaríkjadala í tekjuskatt til ríkisins. Þó er ekki hægt, að sögn Mitchells, að þakka þessar auknu skatttekjur eingöngu skattalækkununum, heldur hafi Reagan einnig einfaldað regluverkið, dregið úr íþyngjandi reglum og opnað markaði upp á gátt.

„Skattastefna hverju sinni hefur áhrif á vilja fólks til að afla sér tekna og gefa þær upp til skatts. Eins og ég segi, þá er rangt að gera ráð fyrir línulegu sambandi á milli skatthlutfalls og skatttekna. Það er ekkert slíkt línulegt samband til.“ 

Mitchell tók fleiri raunveruleg dæmi um áhrif Laffer-bogans. „Gordon Brown hækkaði til dæmis skatta á þá ríkustu um 10% í kjölfar fjármálakreppunnar. Afleiðingin var ekki sú að skatttekjur hækkuðu, líkt og Brown hafði reiknað með, heldur lækkuðu þær.“ Tók hann einnig dæmi um Rússland, Írland og Frakkland en í öllum þessum löndum voru skattar, ýmist á fyrirtæki eða einstaklinga, lækkaðir um tíma með þeim afleiðingum að skatttekjurnar stórjukust.

Skattkerfið sé einfalt

Hann benti einnig á mikilvægi þess að skattkerfið væri einfalt, en ekki flókið. Sértækar undanþágur séu, svo eitt dæmi sé tekið, óhagkvæmar vegna þess að þær leiði til þess að fólk taki ákvarðanir sem séu eingöngu byggðar á skattalegum ástæðum. Þá leiði skattafrádráttur og sértækar undanþágur að lokum til spillingar.

Mælti hann með því að ríki tækju upp það sem kallað er flatur skattur. Það þýðir að skattprósentan sé alltaf sú sama í skattkerfinu og engin skilgreind þrep séu til staðar. „Það er aukinni alþjóðavæðingu, frjálsum viðskiptum og skattasamkeppni að þakka að mörg ríki hafa nú þegar tekið upp flatan skatt með afar góðum árangri.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir