Vara við notkun sýndarfjár

Stjórnvöld hafa varað við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum, varðveislu á …
Stjórnvöld hafa varað við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum, varðveislu á eða viðskiptum með sýndarfé, svo sem bitcoin. GEORGE FREY

Íslensk stjórnvöld hafa varað við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum, varðveislu á eða viðskiptum með sýndarfé, svo sem bitcoin og auroracoin.

Í sameiginlegri tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, Neytendastofu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu segir að gildandi lög á Íslandi verndi neytendur ekki gegn tapi á sýndarfé, til dæmis ef „markaðstorg“ sem skiptir eða varðveitir sýndarfé bregst skyldum sínum eða ef greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila.

Tilkynningin kemur í tilefni af fyrirhugaðri úthlutun sýndarfjár (Auroracoin) til Íslendinga. Þar segir jafnframt að sýndarfé megi lýsa sem tilbúnum stafrænum skiptimiðli. Sýndarfé hafi víða rutt sér til rúms en notkun og viðskipti með það hafi hingað til verið afar takmörkuð hér á landi.

„Handhafi sýndarfjár á ekki kröfu á útgefanda sambærilega því sem við á um peningaseðla og mynt, rafeyri, innlán og annars konar inneign á greiðslureikningi í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Verðgildi og óhindrað aðgengi að sýndarfé sé alls ótryggt frá einum tíma til annars.

Notkuninni geti fylgt áhætta

Í tilkynningu frá Seðlabankum segir enn fremur að notkun sýndarfjár geti fylgt mikil áhætta. Enda sýni reynslan undanfarin misseri að virði sýndarfjár í viðurkenndum gjaldmiðlum hafi sveiflast mikið frá einum tíma til annars.

„Það er mat Seðlabankans að ekki sé til staðar heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri af fjármálafyrirtæki hér á landi eða til flutnings erlends gjaldeyris á milli landa, á grundvelli viðskipta með sýndarfé. Þegar af þeirri ástæðu eru viðskipti með sýndarfé takmörkunum háð á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Seðlabankinn bendir einnig á að hvorki Auroracoin né Bitcoin sé viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga.

„Vert er að minna á að hér á landi hefur Seðlabanki Íslands einkarétt til að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem getur gengið manna á milli í stað peningaseðla og löglegrar myntar,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK