Loka á eina stærstu rafmyntakauphöll heims

Bitcoin er ein þekktasta rafmynt í heimi en fjöldinn allur …
Bitcoin er ein þekktasta rafmynt í heimi en fjöldinn allur af rafmyntum hefur skotið upp kollinum á síðustu árum. AFP

Breska fjármálaeftirlitið (FCA) hefur nú gert Binance, einni stærstu rafmyntakauphöll heims, að hætta allri leyfisskyldri starfsemi í Bretlandi. Eftirlitið úrskurðaði að Binance gæti ekki stundað neina „skipulagða starfsemi“ í Bretlandi. Er Binance einnig gert að varðveita öll gögn um viðskipti breskra neytenda við félagið og hætta að auglýsa þjónustu sína á Bretlandsmarkaði.

Þá sendi eftirlitið frá sér neytendaviðvörun um vefsíðuna Binance.com, þar sem kauphöllin er rekin, og ráðlagði fólki að vera á varðbergi gagnvart auglýsingum sem lofuðu mikilli ávöxtun í gegnum viðskipti með rafmyntir. Binance sagði að tilkynningin hefði engin „bein áhrif“ á þá þjónustu sem Binance veitir á vefsíðu sinni Binance.com. 

Cayman-eyjar og Lundúnir

Kauphöll Binance er ekki skráð í Bretlandi. Því mun úrskurður fjármálaeftirlitsins ekki hafa nein áhrif á íbúa í Bretlandi sem nota vefsíðuna til að kaupa og selja rafmyntir.

Binance er í hópi stærstu rafmyntakauphalla heims og er með höfuðstöðvar sínar á Cayman-eyjum en starfrækir dótturfélagið Binance Markets Limited á Bretlandsmarkaði auk fjölda dótturfélaga í öðrum löndum. Er áætlað að í síðasta mánuði hafi velta á rafmyntamarkaði Binance verið um 1.500 milljarðar dala.

Að sögn Financial Times eru inngrip FCA einhver þau ströngustu sem nokkurt stjórnvald hefur beitt Binance og þykja aðgerðir stofnunarinnar nýjasta dæmið um vaxandi hörku stjórnvalda um allan heim þegar kemur að eftirliti með rafmyntaviðskiptum. Eiga inngripin að lágmarka líkurnar á að rafmyntir séu nýttar við fjársvik eða peningaþvætti og að vernda betur hagsmuni neytenda.

Hafa ekki starfsleyfi í samræmi við reglur

Binance og dótturfélög þess hafa ekki fengið starfsleyfi í samræmi við reglur FCA um starfsemi rafmyntafyrirtækja. Á félagið að hafa sótt um slíka skráningu í síðasta mánuði en dregið umsókn sína til baka, að því er FT greinir frá.

Í maí varaði fjármálaeftirlit Japans við því að Binance væri að selja japönskum ríkisborgurum rafmyntaþjónustu í leyfisleysi, og í apríl upplýsti þýska fjármálaeftirlitið að fyrirtækið hefði að öllum líkindum brotið reglur um verðbréfaviðskipti með því að gefa út n.k. rafmyntir tengdar hlutabréfaverði fyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK