Kínverski draumurinn holdi klæddur

Enskukennarinn fyrrverandi Jack Ma eða Ma Yun eins og hann heitir réttu nafni varð fyrsti kínverski kaupsýslumaðurinn sem komst á forsíðu Forbes. Hann er einn ríkasti maður heims og nú hefur fyrirtækið hans óskað eftir skráningu á markað í Bandaríkjunum og er talið að hún verði sú stærsta í sögunni.

Jack Ma er fæddur 15. október 1964 og er því 49 ára að aldri. Hann nam við kennaraháskólann í Hangzhou eftir að hafa náð inntökuprófinu í þriðju tilraun. Að námi loknu kenndi hann ensku en ákvað hætta kennslu þegar viðskipti á netinu áttu hug hans allan. Hann segist ekki hafa neitt vit á tæknimálum enda horfi hann á viðskipti út frá sjónum viðskiptavinarins. Draumur hans var aldrei á tæknisviðinu heldur dreymdi hann um að verða lögregluþjónn, vísindamaður eða hermaður, að því er fram kom í viðtali við New York Times.

Árið 1999 fékk hann vini til að láta sig fá 60 þúsund Bandaríkjadali, 6,7 milljónir króna, svo hann gæti sett nýtt netfyrirtæki á laggirnar, Alibaba.

Mikilvæg M í huga Ma - mengun, menntun og menning

Nú fimmtán árum síðar er fyrirtækið eitt það stærsta á netinu og Ma einn af ríkustu mönnum Kína en auður hans er metinn á 8,4-13 milljarða Bandaríkjadala. Hann hefur látið umhverfismál sig miklu varða og rennur hluti af hagnaði fyrirtækisins til umhverfismála en Ma telur mengun eina mestu ógn heimsins. Þegar hann hætti sem forstjóri Alibaba í maí í fyrra sagðist hann vilja eyða meiri orku í samfélagsmál í heimalandinu enda standi Kína frammi miklum vanda vegna skorts á vatni, loftgæðum og fæðuöryggi. Þetta valdi því að eftir 10 til 20 ár eigi kínverska þjóðin eftir að standa frammi fyrir auknum heilbrigðisvandamálum svo sem stóraukinni tíðni krabbamens. Eins hafi hann áhuga á menningu og menntun.  Eða eins og hann orðar það: ef ekkert verður að gert þá vex upp kynslóð ungra Kínverja með djúpa vasa en um leið grunnhyggið.

Heit sturta eða göngutúr með hundinn klikka ekki

Ma segir að hann fái flestar af sínum hugmyndum þegar hann fer í langa heita sturtu. Eins finnst honum gott að fara í göngutúra með hundana sína, spila skák og póker. En hann er ekki fjárhættuspilari að eigin sögn. „Þegar ég fór til Las Vegast var ég með sem hámark 500 Bandaríkjadala eyðslu í spilavítinu. Mér finnst gaman að spila á spil. Ég er ekkert sérstaklega góður í því þar sem ég vil ekki þurfa að reikna heldur læt ég eðlisávísunina ráða. En ég hef lært ýmislegt í kaupsýslu með því að spila póker.“

Í gær óskaði Alibaba eftir skráningu í kauphöllinni í New York og telja sérfræðingar að hlutafjárútboð fyrir skráningu geti skilað félaginu 15-16 milljörðum Bandaríkjadala sem setur fyrirtækið á sama stall og þegar Facebook fór á markað árið 2012.

Alibaba er í raun regnhlífarfyrirtæki margra fyrirtækja og má þar nefna Tmall.com sem er stærsta markaðstorg Kínverja á netinu. 

Ma hóf fyrirtækjareksturinn á heimili sínu í Hangszhou og í viðtali við CNN sagði MA að þegar hann hafi prófað netið í fyrsta skipti þá hafi hann fundið það um leið og hann snerti lyklaborðið að þetta væri eitthvað sem gæti breytt heiminum og um leið Kína.

Eitt helsta einkenni Ma er hversu mikil áhrif hann hefur á alla í kringum sig og hefur honum oft verið líkt við Steve Jobs heitinn, stofnanda Apple. 

Porter Erisman, fyrrverandi starfsmaður Alibaba, gerði heimildarmynd um fyrirtækið sem nefnist Crocodile in the Yangtze. Erisman segir að Ma noti sér ýmislegt sem er þekkt í Kísildalnum en með kínverskum hætti - áhættusækni og herkænska að leiðarljósi. 

Barátta hákarlsins og krókudílsins

Enskukunnátta Ma kemur sér vel og tekst honum að koma hugsunum sínum vel til skila á enskri tungu, þeirri tungu sem mest er notuð í alþjóðlegum viðskiptum. Það er til skemmtileg lýsing af því hvernig hann sá fyrir sér baráttu eBay og dótturfélags Alibaba, Taobao.com um viðskipti Kínverja á netinu. „eBay er hákarl í sjónum, við erum krókódíll í Yangtze ánni. Ef við berjumst í sjónum þá töpum við en við berjumst í ánni þá vinnum við.“ sagði Ma þegar hann lýsti því hvernig Taobao myndi fara með sigur af hólmi í Kína. 

Ma segir um falsanir og orðspor Kína á því sviði: „Þú ættir að læra af keppinaut þínum en aldrei búa til eftirlíkingu. Falsaðu og þú munt deyja.“ ("You should learn from your competitor, but never copy. Copy and you die.”)

Höfuðstöðvar Alibaba eru enn í heimaborg Ma og hafa kínverskir fjölmiðlar gert mikið úr ævisögu Ma, kínverskri útgáfu að ameríska draumnum. Foreldrar hans voru fátæk og með litla sem enga menntun. Leiðtogahæfileika og sviðsframkomu þakkar Ma foreldrum sínum sem voru listamenn. 

En annars Ma persónulega farið nokkuð hljótt í vestrænni umfjöllun en hann er kvæntur tveggja barna faðir og kom öllum á óvart með því að hætta sem forstjóri Alibaba í fyrra. Þrátt fyrir það hefur hann dagleg afskipti af rekstri þess sem starfandi stjórnarformaður og væntanlega mun ekki draga úr því á næstunni samfara skráningu á bandarískan hlutabréfamarkað. Þegar Ma tilkynnti starfsfólki sínu að hann ætlaði að hætta sem forstjóri Alibaba sagði hann að það væri margt ungt fólk hjá fyrirtækinu sem hefði enn snjallari hugmyndir en hann sjálfur og það hefði getu til þess að byggja upp framtíð fyrirtækisins en hann. 

Áður en tilkynnt var um fyrirhugaða skráningu sendi Jack Ma öllu starfsfólki samstæðunnar póst, yfir 20 þúsund manns, þar sem hann rifjaði upp sögu fyrirtækisins sem var stofnað af átján einstaklingum fyrir tæpum 15 árum síðan. Í upphafi hafi verið ætlunin að setja upp alþjóðlegt netfyrirtæki sem væri stýrt af Kínverjum í þeirri von að það yrði einhvern tíma eitt af tíu stærstu netfyrirtækjum heims, fyrirtæki sem yrði til áfram eða í 102 ár, æviskeið sem spannar þrjár ólíkar aldir. 

Alibaba er stórveldi á heimsvísu og verður forvitnilegt að sjá hvernig félaginu reiðir af á bandarískum hlutabréfamarkaði. Það er hins vegar ljóst að náið verið fylgst með Jack Ma af vestrænum fjölmiðlum sem og í heimalandinu á næstu misserum.

Stofnandi Alibaba, Jack Ma
Stofnandi Alibaba, Jack Ma AFP
AFP
Jack Ma.
Jack Ma. AFP
Jack Ma.
Jack Ma. AFP
Jack Ma.
Jack Ma. AFP
Jack Ma.
Jack Ma. AFP
Höfuðstöðvar Alibaba í Hangzhou sem er í Austur-Kína.
Höfuðstöðvar Alibaba í Hangzhou sem er í Austur-Kína. AFP
AFP
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK