Tekist á um lögmæti verðtryggingar

Fari svo að framkvæmd verðtryggingarinnar verði dæmd ólögmæt myndu íslenskar …
Fari svo að framkvæmd verðtryggingarinnar verði dæmd ólögmæt myndu íslenskar lánastofnanir, aðallega Íbúðalánasjóður, verða af hundruðum milljarða króna.

Á næstu vikum mun EFTA-dómstóllinn gefa ráðgefandi álit í tveimur málum sem snúa að verðtryggingu á íslenskum neytendalánum. Tekist hefur verið á um hvort verðtryggingin gangi í berhögg við tilskipanir Evrópusambandsins, sem hafa verið innleiddar hér á landi, og fari svo að framkvæmd verðtryggingarinnar verði dæmd ólögmæt myndu íslenskar lánastofnanir, aðallega Íbúðalánasjóður, verða af hundruðum milljarða króna.

Um er að ræða tvö mál. Fyrra málið var tekið til meðferðar hjá EFTA-dómstólnum í apríl en hið síðara í júní. Héraðsdómur Reykjavíkur óskaði eftir ráðgefandi áliti dómstólsins í lok seinasta árs í þessum báðum málum.

Í fyrra málinu eru fimm spurningar lagðar fyrir dómstólinn, þar á meðal hvort verðtryggð lán séu í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um neytendalán og hvort verðtryggingin samræmist þá tilskipunum sambandsins um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Í seinna málinu var einni spurningu bætt við. Þar er spurt hvort lánveitanda sé heimilt á lántökudegi að miða við 0% verðbólgu í lánasamingi þegar heildarlántökukostnaður ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar er reiknaður út.

Þegar EFTA-dómstóllinn hefur gefið álit sitt verða málin flutt fyrir íslenskum dómstólum. Bent hefur verið á að engin fordæmi séu fyrir því að íslenskir dómstólar fari gegn áliti EFTA-dómstólsins. Þá verður þetta í fyrsta sinn sem reynir á verðtryggingarákvæðin fyrir dómstólum hérlendis.

Miklir hagsmunir í húfi

Meiri óvissa ríkir um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í seinna málinu. Það snýst um 630 þúsund króna verðtryggt lán sem Sævar Jón Gunnarsson tók hjá Landsbankanum árið 2008. Eftir að höfuðstóll lánsins hækkaði upp úr öllu valdi vegna verðtryggingarinnar greip Sævar til þess ráðs að höfða mál á hendur bankanum til þess að láta reyna á lögmæti verðtryggingarinnar.

Deiluefnið snýr aðallega að því hvort bankanum hafi verið heimilt að miða við 0% verðbólgu, þ.e. að undanskilja verðbætur, þegar hin árlega hlutfallstala kostnaðar var reiknuð út. Bæði framkvæmdastjórn ESB og ESA, eftirlitsstofnun EFTA, telja það ekki samrýmast tilskipunum ESB að miða við 0% verðbólgu.

Ef EFTA-dómstóllinn tekur undir það mun það hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, enda er talið að yfir 90% af verðtryggðum lánasamningum hér á landi séu með skilmálum um 0% verðbólgu.

Íslensk stjórnvöld hafa aftur á móti bent á að þegar hlutfallstalan sé reiknuð út sé mun heppilegra að undanskilja verðbæturnar. Verðbólga hafi verið þrálát í íslenskri hagsögu og þess vegna sé erfitt að spá því hver verðlagsþróunin verður.

Til útskýringar mælir hlutfallstalan heildarkostnað við það að taka lán, þ.e. vexti, lántökugjald, stimpilgjöld og annan kostnað. Tilgangurinn er í raun tvíþættur: Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að kostnaðurinn sé falinn lántakanum og í öðru lagi að gera neytendum kleift að bera saman mismunandi lánamöguleika.

Í áliti sínu hafa íslensk stjórnvöld bent á að verðtryggingin sé algjör lykilþáttur í íslensku efnahagslífi. Þess vegna verði að gera ráð fyrir að neytendur skilji eðli hennar. Þau telja jafnframt að hætt sé við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum, bæði fyrir íslenskan fjármálamarkað sem og stofnanir, komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að verðtryggingin sé ekki í samræmi við tilskipanir ESB.

Verðtryggingin er sögð vera lykilþáttur í íslensku efnahagslífi.
Verðtryggingin er sögð vera lykilþáttur í íslensku efnahagslífi. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK