Huldueigandi finnst ekki

Eignarhald smálánafyrirtækja er á huldu. Lögmaður gat ekki stefnt eiganda …
Eignarhald smálánafyrirtækja er á huldu. Lögmaður gat ekki stefnt eiganda Hraðpeninga fyrir dóm því engar upplýsingar fást um hann. mbl.is/Golli

Eina heimildin sem til er um það að smálánafyrirtækið Hraðpeningar hafi verið selt félagi að nafni Jumdon Finance Ltd. á Kýpur er ársreikningur Hraðpeninga frá árinu 2011, sá síðasti sem félagið hefur skilað hér á landi. Engar frekari upplýsingar hafa verið veittar um það þegar allt hlutafé Hraðpeninga var selt til kýpverska huldufélagsins, sem raunar er nefnt Jumdon Micro Finance Ltd. í ársreikningi en það virðist vera eitt og hið sama og Jumdon Finance Ltd.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er ekkert sem bendir til þess að félagið Jumdon Finance hafi nokkra starfsemi eða skrifstofur á Kýpur. Þar í landi er félaginu skylt að skila ársreikningum en það hefur félagið ekki gert. Tengiliður Jumdon Finance á Kýpur er lögfræðistofa á nafni George Y. Yangou LLC en þegar haft var samband við hana fengust engar upplýsingar um starfsemina, og borið er við þagnarskyldu.

Félagið Jumdon Finance var stofnað á árinu 2011, sama ár og það á að hafa keypt Hraðpeninga. Jumdon Finance er einnig eigandi smálánafyrirtækisins Múla ehf. auk þess sem Hraðpeningar eiga allt hlutafé í smálánafyrirtækinu 1909 ehf. Saman starfa þessi þrjú fyrirtæki undir merkjum félags sem kallast Neytendalán ehf.

Síðasti ársreikningur sem Hraðpeningar skiluðu inn hér á landi var fyrir árið 2011. Þegar nýir eigendur taka við fyrirtæki er algengt að þeir vilji fá völdin í sínar hendur. Svo var ekki í tilviki Jumdon Finance því árið sem það félag á að hafa eignast allt hlutafé í Hraðpeningum, 2011, varð engin breyting á stjórnarsetu, prókúruhöfum eða framkvæmdastjórn Hraðpeninga. Skorri Rafn Rafnsson var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi frá því í desember 2010 og fram í mars 2012. Engin breyting varð á því þrátt fyrir að allt hlutafé í félaginu hefði skipt um eigendur. 

Ekki hægt að stefna félagi sem er ekki til

Deilur standa yfir fyrir dómstólum um eignarhald Hraðpeninga. Einn af stofnendum þess, Sverrir Einar Eiríksson, hefur höfðað mál á hendur Skorra Rafni Rafnssyni, öðrum stofnanda, og Hraðpeningum ehf. og sakar hann um að hafa sölsað félagið undir sig með ólögmætum hætti. 

Stefna var lögð fram hinn 26. júní í fyrra en Skorri Rafn hefur farið fram á frávísun á þeim grundvelli að stefna hefði átt Jumdon Finance Ltd. einnig fyrir dóminn, en ekki aðeins sér og Hraðpeningum ehf. Héraðsdómur Reykjavíkur tók frávísunarkröfuna fyrir hinn 7. janúar síðastliðinn en úrskurður hefur ekki verið kveðinn upp.

Lögmaður stefnanda, Skúli Sveinsson hdl., segir það hafa reynst ógerlegt að stefna Jumdon Finance þar sem engar upplýsingar liggi fyrir um félagið. Ekki sé hægt að stefna félagi sem er ekki til. 

„Lögð er fram áskorun í stefnunni um að veittar séu upplýsingar um Jumdon Finance. Þeir segja að Jumdon Finance sé eigandi og það félag sé skráð á Kýpur en hafa hins vegar ekki lagt fram nein gögn um það félag. Það liggja í raun engin gögn fyrir um að þetta félag sé yfirhöfuð til,“ segir Skúli í samtali við blaðamann.

Svara engu um Jumdon Finance
Blaðamaður hefur ítrekað reynt að ná í Óskar Þorgils Stefánsson, framkvæmdastjóra og stjórnarmann Hraðpeninga, og sent honum tölvupósta með fyrirspurnum um eignarhald Jumdon Finance en engin svör fengið. Varamaður hans í stjórn, Atli Finndal Heimisson, vísaði á Óskar þegar blaðamaður náði tali af honum en vildi sjálfur engar upplýsingar veita um Jumdon Finance. Sagði að allar fyrirspurnir yrðu að fara gegnum Óskar. Skorri Rafn Rafnsson benti einnig á Óskar í samtali við blaðamann en vildi sjálfur ekki ræða um Hraðpeninga. 

Fjallað er um eignarhald Hraðpeninga og huldufélagið Jumdon Finance í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þá er umfjöllun um neytendalánalöggjöf í Króatíu en þar í landi lagðist systurfyrirtæki Hraðpeninga af með breyttri löggjöf.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK