Norðmenn eyddu mestu

Ferðamaður á Skólavörðuholti.
Ferðamaður á Skólavörðuholti. Ómar Óskarsson

Erlendir ferðamenn greiddu með kortum sínum liðlega tvo milljarða króna fyrir skipulagðar ferðir í janúar og eyddu þeir heilt yfir um níu prósent meira í mánuðinum en í desember. Heildarkortavelta erlendra ferðamanna nam um 7,2 milljörðum króna í janúar sem er 32,5 prósent hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Rannsóknarsetur verslunarinnar greinir frá þessu. Af einstökum útgjaldaliðum má nefna að um 50% aukning var í veltu bílaleiga í mánuðinum frá því í fyrra og yfir þriðjungsaukning var í veltu hótela- og gistihúsa. Þá naut menningarstarfsemi, eins og söfn og viðburðir, góðs af aukinni kortaveltu útlendinga þar sem aukningin nam næstum 30% frá janúar í fyrra.

Ferðamenn frá Noregi keyptu að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum en bent er á að þar hefur eflaust að einhverju leyti verið á ferðinni fólk í jólafríi sem á uppruna sinn á Íslandi en eru búsettir í Noregi og eru með þarlend greiðslukort. Svisslendingar fylgja þar fast á eftir.

Kortavelta á hvern ferðamann minnkar

Greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann hefur hins vegar farið minnkandi ef bornir eru saman janúarmánuðir hvert ár frá 2013, eða sem nemur 10,8%. Mögulegar skýringar gætu verið breytingar í dvalarlengd hvers ferðamanns eða ef útgjöld fara í meiri mæli gegnum erlendar bókunarsíður.

Sé litið til kortaveltu íslenskra ferðamanna hefur aukningin ekki orðið viðlíka eins og meðal erlendra gesta. Mældir eru þrír útgjaldaliðir íslenskrar kortaveltu, þ.e. vegna gistinga, flugferða og ýmissar ferðaþjónustu eins og skoðanaferða. Heildarveltuaukningin í janúar í þessum útgjaldaflokkum á milli ára er alls 5,3%.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK