Byko gert að greiða 650 milljónir

Vegna alvarlegra brota Byko á samkeppnislögum er Norvik, móðurfélagi Byko, gert að greiða 650 milljónir króna í stjórnvaldssekt.

Samkeppniseftirlitið birti í dag ákvörðun sína þar sem eftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna á því tímabili sem rannsóknin tók til, þ.e. til mars 2011 þegar rannsóknin hófst. Í því samráðsbroti Byko fólst m.a.:

  • Reglubundin, yfirleitt vikuleg, samskipti við gömlu Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á svonefndum grófvörum (grófvörur eru t.d. timbur, steinull og stál).
  • Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum.
  • Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.
  • Samráð við gömlu Húsasmiðjuna um að hækka verð á miðstöðvarofnum.
  • Að hafa gert sameiginlega tilraun með gömlu Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum.

Alvarlegt brot og framið af ásetningi

„Samkeppniseftirlitið telur að brot Byko séu mjög alvarleg og hafi verið framin af ásetningi. Þau voru til þess fallin að valda húsbyggjendum og almenningi öllum umtalsverðu tjóni,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Til að stuðla m.a. að því að brot af þessu tagi verði ekki framin innan þeirrar samstæðu sem Byko tilheyrir er sektin lögð á móðurfélag Byko, Norvík,

Steinull braut einnig gegn samkeppnislögum

Í ákvörðun sinni kemst Samkeppniseftirlitið einnig að þeirri niðurstöðu að Steinull hafi brotið gegn skilyrðum í ákvörðun samkeppnisráðs,m.a. með því að veita Húsasmiðjunni upplýsingar um viðskiptakjör Múrbúðarinnar.

Umrædd skilyrði voru sett vegna kaupa Byko, Húsasmiðjunnar og Kaupfélags Skagfirðinga á eignarhlutum í Steinullarverksmiðjunni hf. (nú Steinull hf.). Skilyrðunum var ætlað að vinna gegn því að sameiginleg eignaraðild Byko og Húsasmiðjunnar að Steinull myndi takmarka samkeppni. Samkeppniseftirlitið telur hæfilegt að leggja 20 mkr. stjórnvaldssekt á Steinull vegna þessa.

Brot þessa máls tengjast ekki núverandi rekstraraðilum Húsasmiðjunnar. Rannsókn á þætti Húsasmiðjunnar í málinu lauk í júlí á síðasta ári.

Húsasmiðjan viðurkenndi brot og gerði sátt í fyrra

Með sátt dags. 9. júlí 2014, viðurkenndi fyrrum rekstraraðili Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10 ehf., að gamla Húsasmiðjan hefði átt í ólögmætu samráði við Byko með þeim hætti sem lýst er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem gefin er út í dag.

Þá var einnig viðurkennt að gamla Húsasmiðjan hefði brotið gegn fyrrgreindri ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2002, m.a. með því að hafa beitt sér gagnvart Steinull til að koma í veg fyrir að Múrbúðin fengi ákveðin viðskiptakjör.

Jafnframt var stjórnvaldssekt greidd vegna brotanna. Þá gerði núverandi rekstraraðili Húsasmiðjunnar sátt við Samkeppniseftirlitið sama dag, þar sem Húsasmiðjan skuldbatt sig til að grípa til aðgerða til að tryggja að umrædd brot endurtækju sig ekki.

Þann 9. apríl 2015 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness í sakamáli sem embætti sérstaks saksóknara höfðaði gegn starfsmönnum Byko og Húsasmiðjunnar. Þeim dómi hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar. Það sakamál hefur ekki áhrif á niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, segir enn fremur í tilkynningu.

Samandregin niðurstaða í máli gegn Byko

Upplýsingasíða um brot á samkeppnislögum á byggingamarkaði

Húsasmiðjan
Húsasmiðjan mbl.is/Ómar
Byko og Húsasmiðjan.
Byko og Húsasmiðjan. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK