„Værum miklu betur sett án evrunnar“

AFP

„Við værum miklu betur sett án evrunnar. Evran er meiriháttar efnahagslegt, fjármálalegt, pólitískt og félagslegt glæfraspil,“ segir danski hagfræðingurinn Lars Christensen í grein á vefsíðu sinni í dag um þá stöðuna á evrusvæðinu og skuldavanda Grikklands, en hann er þekktastur hér á landi fyrir að hafa varað við falli stóru íslensku bankanna í aðdraganda þess. Greinin hefst á því að Christensen biður lesendur sína að ímynda sér hvernig umhorfs væri ef evran hefði aldrei komið til og evruríkin haft frelsi til þess að velja eigin peningastefnu og efnahagsstefnu.

„Sumum ríkjanna gengi vel og öðrum gengi illa. En haldið þið í alvöru að við stæðum frammi fyrir jafn djúpri efnahagskreppu og við höfum orðið vitni að undanfarin sjö ár innan Evrópusambandsins? Haldið þið að landsframleiðsla Grikklands hefði hrapað um 30%? Að landsframleiðsla Finnlands hefði minnkað meira en í kreppunni miklu og bankakrísunni í landinu á tíunda áratugnum samanlagt? Haldið þið að evrópskir skattgreiðendur hefðu þurft að dæla milljörðum evra í að bjarga ríkisstjórnum í Suður- og Austur-Evrópu auk þýskra og franskra banka?“ spyr Christensen og heldur áfram:

„Haldið þið að jafnmikil óeining ríkti innan Evrópusambandsins og raunin er nú? Haldið þið að við stæðum frammi fyrir sama fjandskapnum á milli Evópuþjóða? Haldið þið að við yrðum vitni að uppgangi stjórnmálaflokka eins og Gullinnar dögunar og Syriza í Grikklandi og Podemos á Spáni? Að andúð á innflytjendum og verndarhyggja færi vaxandi um alla Evrópu líkt og verið hefur? Haldið þið að evrópski bankageirinn hefði verið nær lamaður undanfarin sjö ár? Og það sem mestu máli skiptir, haldið þið að 23 milljónir manna væru atvinnulausar innan Evrópusambandsins? Svarið við öllum þessum spurningum er NEI!“

Sökin hjá stjórnmála- og embættismönnum ESB

Christensen segir þá stöðu sem upp er komin vera „ógeðslega“. Sökin liggi að hans mati hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum evrusvæðisins sem og hagfræðingum sem hafi ekki varað við hættunni af því að koma evrunni á laggirnar en þess í stað stutt þau áform sem hafi verið „brjálæðisleg“ frá efnahagslegum sjónarhóli. Ekki sé hægt að segja að enginn hafi varað þá við. Það hafi til að mynda bandaríski hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman og fleiri gert. Þar á meðal Bernard Connolly sem hafi í kjölfarið verið vikið úr framkvæmdastjórn Evrópusambandsins árið 1995.

„Brottvikning Bernards Connolly er því miður lýsandi fyrir þann skort á umræðu um peningastefnuleg mál sem er fyrir hendi innan Evrópusambandsins. Öll andstaða við „verkefnið“ er þögguð niður. Tilgangurinn helgar alltaf meðalið,“ segir hann ennfremur. Fáir aðrir en sænskir og danskir kjósendur hafi fengið að greiða atkvæði um evruna í þjóðaratkvæðagreiðsluna og haft vit á því að hlusta ekki á yfirstéttir landa sinna. Fyrir vikið væru Danir og Svíar í miklu betri málum í dag en þeir hefðu annars verið. Auðvelt væri að skilja óánægju kjósenda í evruríkjunum enda hafi verið logið að þeim.

„Ég get aðeins sagt að ég skilji reiði Grikkja eftir að hafa upplifað efnahagslega og félagslega erfiðleika í sjö ár og ég get líka skilið að skattgreiðendur í Finnlandi vilji ekki standa undir enn einum tilgangslausa björgunarpakkanum fyrir Grikkland. En þeir ættu ekki að kenna hvorir öðrum um. Þeir ættu að beina reiði sinni að evrópsku stjórnmálamönnunum sem komu þeim inn á evrusvæðið.“

Danski hagfræðingurinn Lars Christensen.
Danski hagfræðingurinn Lars Christensen. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir