Óþverraviðskipti og hefnigirni

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Hinir ljósfælnu gammar og leppar þeirra kæra sig kollótta þótt almennir hluthafar séu blekktir og trúverðugleika lífeyrissjóða stefnt í voða. Lægra verður varla lagst,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson um fréttir af aðkomu félagsins Urriðahæðar ehf., sem er í eigu Árna Harðarsonar, fyrrum samstarfsmanns Björgólfs, að hópmálsókninni gegn honum.

Líkt og fram hefur komið fer Urriðahæð með um 60% allra hluta í málsókninni og hefur m.a. fengið framseld réttindi fimm lífeyrissjóða; Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna rík­is­ins og hjúkr­un­ar­fræðinga, Gild­is líf­eyr­is­sjóðs, Stafa líf­eyr­is­sjóðs, Fest­ar líf­eyr­is­sjóðs og Líf­eyr­is­sjóðs Vesta­manna­eyja.

Kom auð sínum undan kröfuhöfum

Í nýrri færslu á heimasíðu sinni segir Björgólfur niðurstöðuna ekki hafa komið sér á óvart og bendir á að eigandi „hrægammasjóðsins“ sé Árni, starfsmaður Róberts Wessman. „Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu síðan mér var nauðbeygður kostur að reka Róbert úr forstjórastóli Actavis eftir að félagið fór á hliðina undir hans stjórn. Þeir telja sig eiga harma að hefna og hafa leitað að átyllu til að fara í mál við mig. Átylluna fundu þeir að endingu í hugarburði um að ég beri ábyrgð á reikningsskilum Landsbanka Íslands,“ skrifar Björgólfur. 

Hann segir Róbert hafa í digra sjóði að sækja, enda hafi hann vandlega gætt þess að koma auð sínum undan kröfuhöfum, í stað þess að gera upp milljarða skuldir sínar við íslensku bankana eftir hrun. „Auðvitað gera þeir sér engar vonir um bætur úr minni hendi, enda eina markmiðið að sverta mannorð mitt,“ segir hann.

Lokkaðir með gylliboðum

Þá snýr hann að Vilhjálmi Bjarnasyni og segir hann ranglega hafa talið fólki trú um að það hafi einhvern veginn verið blekkt með klókindum og lagakrókum og lokkað það með gylliboðum um óskilgreindan gróða út úr „þeim skelfilega atburði sem bankahrunið hér var.“

„Þessir almennu hluthafar gátu ekki vitað að þeir yrðu skjöldur fyrir óþverraviðskipti af þessu tagi og myndu meira að segja standa undir hluta kostnaðarins af þessari hefnigirni,“ segir Björgólfur og veltir því upp hvort Vilhjálmur hafi sjálfur verið blekktur.

Þá segist hann leyfa sér að trúa því að lífeyrissjóðirnir hafi varla vitað hverjir stóðu að baki þessum kaupum. „Ef þeir hins vegar vissu hverjir kaupendur voru þá hafa þeir metið siðferði sitt á 5-10 milljónir króna – og má vera að það sé yfir raunvirði.“

Árni Harðarson
Árni Harðarson
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, á Alþingi.
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK