Er ódýrara að kaupa vín á netinu?

Vinsælustu vínin hér á landi virðast ódýrari í Vínbúðinni.
Vinsælustu vínin hér á landi virðast ódýrari í Vínbúðinni. mbl.is/Júlíus

Töluverð umræða hefur verið um heimsendingar á áfengi frá útlöndum á liðnum dögum og fór mbl því á stúfana og gerði óformlega verðkönnun til þess að athuga hvort slíkt gæti verið hagkvæmara en að versla í Vínbúðinni hér heima.

Í stuttu máli virðist svo ekki vera en líkt og Atli Freyr Ein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri DHL, benti á í gær eru það helst vínáhugamenn að kaupa tegundir sem ekki fást hér á landi sem fara þessa leið. „Það felst aug­ljós hag­kvæmni í því að flytja mikið magn á stór­um brett­um með sjó­frakt,“ sagði hann og vísaði til Vínbúðarinnar. Þrátt fyrir það virðist nokkur fjöldi fara þessa leið þar sem DHL hefur á þessu ári afgreitt 600 áfengissendingar til annarra en stórkaupenda.

Samkvæmt ársskýrslu Vínbúðarinnar frá síðasta ári er Tommasi Appassionato Graticcio vinsælasta rauðvín landsins en vínið kostar 2.250 krónur í Vínbúðinni.

Við lauslega skoðun virðist besta verðið á sama víni í netverslunum vera 9,9 evrur á eBay fyrir eina flösku. Þess ber að geta að tiltölulega fáir seljendur senda til Íslands. Ljóst er að flaskan er mun ódýrari á eBay en í ríkinu þar sem hún kostar aðeins tæpar 1.400 krónur á núverandi gengi. Hins vegar bætist 16,9 evra flutningakostnaður við verðið, eða sem nemur 2.300 krónum. Heildarverðið er því strax komið upp í 3.700 krónur og er flaskan þar með orðin dýrari en hér á landi, án virðisaukaskatts og áfengisgjalds.

Samkvæmt reiknivél tollsins leggst 675 króna áfengisgjald á vöruna, en það nemur 83,78 krónum á hvern cl af vínanda umfram 2,25 prósent, og 24 prósenta virðisaukaskattur sem nemur 1.055 krónum.

Heildarverð þegar varan er komin í hendur neytanda er 5.449 krónur og verður flaskan þar með 3.199 krónum dýrari.

Hagkvæmni í magni

Töluverðri kostnaðarhagkvæmni er hægt að ná fram með meira magni þar sem 16,9 evra flutningskostnaður er aðeins grunngjald og kostar hver auka flaska aðeins 0,9 evrur.

Sé farið með þetta dæmi í gegnum reiknivél tollsins eru flöskurnar þó ennþá dýrari en sama magn í Vínbúðinni. Tíu flöskur með sendingarkostnaði kosta 17.500 krónur en við það bætast 12.808 krónur í áfengisgjald og virðisaukaskatt og verður heildarupphæðin því 30.308 krónur. Þar með er varan 7.808 krónum dýrari en í Vínbúðinni þar sem upphæðin nemur 22.500 krónum.

Sama með dýrari tegundir

Sama er að segja um aðrar dýrari áfengistegundir, líkt og Mumm Cordon Rouge Brut kampavín sem kostar 6.699 krónur í Vínbúðinni. Á vefsíðu Amazon er hægt að fá sömu flösku á 29,95 pund, eða 5.983 krónur og með ódýrum sendingarkostnaði, eða sem nemur aðeins 6,08 pundum, eða 1.200 krónum. Með virðisaukaskatti og áfengisgjaldi er flaskan mun dýrari og kostar alls 9.712 krónur.

Ef tíu flöskur eru pantaðar nemur upphæðin 84.347 krónum samanborið við 66.990 krónur fyrir sama magn í Vínbúðinni.

Eflaust er hægt að gera góð kaup á áfengi á tilboðsverði á netsíðum en ekki virðist hagkvæmt að flytja inn tegundirnar sem eru vinsælar hér á landi í litlu magni. Úrvalið ætti samkvæmt þessu að vera ráðandi ástæða netkaupa á áfengi.

Frétt mbl.is: Vínáhugamenn panta í gegnum netið

Frétt mbl.is: Not­færa sér DHL í stað ÁTVR

Áfengisgjald og virðisaukaskattur leggst á vöruverð.
Áfengisgjald og virðisaukaskattur leggst á vöruverð. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Á síðasta ári afgreiddi DHL um 600 sendingar á áfengi …
Á síðasta ári afgreiddi DHL um 600 sendingar á áfengi til þeirra sem ekki eru stórkaupendur. AFP
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK