Gott ár þrátt fyrir óveður

Úr stjórnstöð Landsnets.
Úr stjórnstöð Landsnets. Ljósmynd/Landsnet

Í nýbirtum ársreikningi Landsnets segir að reksturinn hafi gengið vel á síðasta ári, þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður og tjón af völdum óveðurs.

Hagnaður var ríflega fjórir milljarðar króna á móti tæplega 3,8 milljörðum árið 2014. Hagnaður fyrir fjármagnsliði hækkaði um 1,3 milljarða króna milli ára og skýrist að langmestum hluta af hagstæðri gengisþróun.

Rekstrartekjur námu rúmum 16 milljörðum króna og jukust um 12,8 prósent milli ára en það skýrist af hagstæðri gengisþróun. Meirihluti tekna félagsins er í dollurum og staða hans sterk

Ráðist var í niðurgreiðslu skulda upp á sjö milljarða króna á árinu til draga úr fjármagnskostnaði.

Í afkomutilkynningu segir að jákvæð þróun sé í rekstrarumhverfi Landsnets með nýrri reglugerð sem tryggi tekjustofn fyrirtækisins til framtíðar.

Í framtíðinni verður rekstur fyrirtækisins gerður upp í Bandaríkjadölum sem metinn hefur verið starfrækslugjaldmiðill félagsins.

Í tilkynningu segir að það skapi tækifæri til að fjármagna Landsnet á hagstæðari lánakjörum en félagið hefur búið við til þessa og draga úr rekstraráhættu.

Árið 2015 er því það síðasta sem ársreikningur félagsins er birtur í íslenskum krónum.

Í ársreikningnum segir að tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutaps í flutningskerfinu hafi aukist um 354 milljónir króna, eða 18,6 prósent, á milli ára.

Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu hækkað 1. ágúst um 7,8 prósent og gjaldskrá vegna orkutapa um 24,7 prósent þann 1. febrúar. Hækkanir má rekja til hærra innkaupsverðs á þessum liðum en gjaldskrá er sett á kostnaðargrunni með 1,5 prósent álagi.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir