15 milljónir til kvenna á flótta

Vinsældir FO húfunnar voru gríðarlegar og seldist hún upp á ...
Vinsældir FO húfunnar voru gríðarlegar og seldist hún upp á fimm dögum. Mynd/Saga Sig

Tæpar fimmtán milljónir króna söfnuðust við sölu á Fokk ofbeldi húfu UN Women á Íslandi og af sms-söfnuninni Konur á flótta. Fjármunirnir renna beint til svæðisskrifstofu UN Women í Evrópu og Mið-Asíu þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er í broddi fylkingar.

Það sem af er ári hefur landsnefnd UN Women á Íslandi staðið fyrir tveimur söfnunarátökum til styrktar bættum aðbúnaði flóttakvenna og barna þeirra á landamærastöðvum í Evrópu.

Í lok janúar efndi UN Women á Íslandi til sms-söfnunar þar sem landsmenn voru hvattir til að senda sms-ið KONUR í 1900. „Viðtökur landsmanna voru magnaðar og samtakamátturinn allsráðandi. Það er ómetanlegt að finna þennan samhug og greinilegt að almenningi er umhugað um hag flóttakvenna,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Hún bendir á að UNWomen hafi nýverið gert úttekt á landamærastöðvum Makedóníu og Serbíu, með þarfir flóttakvenna í huga. Í ljós kom að aðstæður eru slæmar og mæta illa þörfum kvenna með börn. „Því var gríðarlega mikilvægt að ráðast í þessa söfnun og bæta aðstæður þessara varnarlausu hópa,“ segir Inga Dóra.

Í janúar og febrúar á þessu ári voru konur og ...
Í janúar og febrúar á þessu ári voru konur og börn í meirihluta meðal þeirra flóttamanna sem lögðu í hættuför yfir Miðjarðahafið í leit að öruggu skjóli. Andrew McConnell/PANOS

Seldist upp á fimm dögum

Um miðjan febrúar hófst síðan sala á Fokk ofbeldi húfunni sem seld var í Pennanum Eymundsson um allt land. Óhætt er að segja að húfan hafi farið um líkt og eldur um sinu en hún seldist upp á aðeins fimm dögum og færri fengu en vildu. „Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið og enn rignir inn fyrirspurnum um Fokk ofbeldi húfuna. Það er virkilega ánægjulegt að finna þennan meðbyr ekki síst í ljósi þess að hann kemur frá fólki úr öllum áttum á ólíkum aldri,“ segir Inga Dóra.

Frétt mbl.is: FO húfan nánast uppseld

Hagnaðurinn af Fokk ofbeldi húfunni og sms- söfnunin Konur á flótta gerir UN Women á Íslandi kleift að senda tæpar 15 milljónir beint til þessa verkefnis svæðisskrifstofu Evrópu og Mið-Asíu þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er í broddi fylkingar.

Þeir fjármunir sem Íslendingar hafa lagt af mörkum á innan við tveimur mánuðum gerir svæðisskrifstofunni kleift að bregðast við neyð flóttakvennanna með viðeigandi aðgerðum með þarfir kvenna og barna þeirra í huga og bæta öryggi þeirra.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir