Blaðamannalistinn fer í rannsókn

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri mbl.is/Árni Sæberg

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri segist bíða listans sem blaðamannasamtökin ICIJ hafa yfir félög í skattaskjólum og mun hefja rannsókn ef tilefni er til. Listinn verður birtur á næstunni að sögn fjölmiðlamannsins Jó­hann­esar Kr. Kristjáns­sonar. Bryndís segir embættið ætla að halda sig utan umræðunnar um einstök félög.

Skattrannsóknarstjóri keypti í byrjun síðasta sumars gögn um skattskil 400 til 500 félaga í eigu Íslendinga erlendis af huldumanni. Flest málin voru send áfram til Ríkisskattstjóra og er það niðurstaða embættisins að skoða þurfi málin betur. Eftir frekari skoðun gætu nokkur alvarleg mál ratað aftur til skattrannsóknarstjóra að sögn Bryndísar.

Skattrannsóknarstjóri hélt hins vegar eftir þrjátíu alvarlegustu málunum og er töluvert langt í að rannsókn á þeim verði lokið að sögn Bryndísar. Mögulega verður niðurstöðu ekki að vænta fyrr en á næsta ári.

Ekki er orðið ljóst hversu mörg þeirra mála verða send áfram til lög­reglu eða sér­staks sak­sókn­ara. „Stundum skýrast málin og verða kannski felld niður en önnur geta orðið stærri en maður ætlaði í upphafi,“ segir Bryndís og bætir við að lítið sé því hægt að segja á þessum tímapunkti.

Birtist á næstunni

Annar listi en sá aðkeypti rataði síðan nýlega í fréttir. Að honum hafa alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, og þýska dagblaðið Sūddeutsche Zeitung, unnið ásamt fjölmörgum fjölmiðlum í nokkrum löndum. Íslenski fjölmiðlamaðurinn Jó­hann­es Kr. Kristjáns­son er þeirra á meðal og segir hann að listinn verði birtur á næstunni.

Þess fyrir utan segist hann bundinn trúnaði og getur ekki gefið upp nákvæmari tíma. Þá segist hann ekki geta staðfest orðróm um að nöfn stjórnmálamanna og annarra þekktra einstaklinga sé að finna á listanum en líkt og fram hefur komið er þar að minnsta kosti að finna Tortóla-félag eiginkonu forsætisráðherra. Hún greindi frá því eftir að fyrirhuguð birting lá fyrir.

Á mánudaginn sagðist Eyjan hafa staðfestar heimildir fyrir því að áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tengist listunum.

Telur upplýsingarnar áreiðanlegar

Aðspurð hvort listarnir tveir séu sambærilegir segir Bryndís það ekki liggja fyrir. Hún segir ljóst að embættið muni fá þessi gögn í hendur og að rannsókn verði hafin í framhaldinu ef tilefni þykir til. „Við myndum ætla, líkt og í öðrum lekum, að þetta séu áreiðanlegar upplýsingar og það hafa í sjálfu sér ekki verið neinar deilur um það,“ segir hún. 

Hún segir þennan lista þó engin áhrif hafa á framgang núverandi rannsóknar, en ef viðbótargögn um málin koma í ljós verður einnig litið til þeirra. 

Aðspurð um einstök félög eða einstaklinga á lista skattrannsóknarstjóra segist Bryndís engu geta svarað. Hún segist reyna að halda sig utan umræðunnar sem nú er í gangi. „Ég er að reyna feta hinn vandrataða stíg, þar sem ég svara því sem mér ber að svara, en án þess að taka þátt í því sem núna er í gangi,“ segir hún.

„Það er búið að boða birtingu þessara gagna frá ICIJ en þangað til höldum við bara okkar striki. Ég hef mínar hugmyndir um þetta en tel það sé ekki tímabært að tjá mig fyrr en þetta liggur fyrir,“ segir Bryndís.

Jóhannes Kr. Kristjánsson er meðlimur ICIJ.
Jóhannes Kr. Kristjánsson er meðlimur ICIJ. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir. Komið hefur fram …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir. Komið hefur fram að Anna Sigurlaug á félag á Tortóla. Af vef Framsóknarflokksins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK